Íslenska landsliðið í handknattleik vann sinn fyrsta leik á Evrópumóti kvenna í handknattleik í kvöld þegar það lagði Úkraínu, 27:24, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 16:9. Grunnurinn var lagður í fyrri hálfleik. Síðari hálfleikurinn var erfiður enda íslenska liðið þá komið í hlutverk sem það þekkir ekki, vera sterka liðið og eiga að vinna leik í lokakeppni EM.
Framundan er úrslitaleikur við þýska landsliðið um sæti í milliriðlakeppni EM á þriðjudagskvöld kl. 19.40. Ný áskorun fyrir íslenska landsliðið.
Hvernig sem leikurinn fer á þriðjudaginn er ljóst að sigurinn í kvöld eykur vonir íslenska liðsins á að verða í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í umspilsleiki fyrir HM að ári í Vínarborg 15. desember.
Íslenska liðið tók völdin í leiknum strax í upphafi, skoraði þrjú fyrstu mörkin, þar af tvö eftir hraðaupphlaup. Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður tók upp þráðinn frá síðasta leik og varði vel, jafnt langskot sem opin færi. Íslenska liðið nýtti sér hraðann og komst yfir, 10:4, þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður.
Tók strax hlé
Þjálfari úkraínska liðsins tók leikhlé strax eftir fimm mínútur í stöðinni 3:0 og aftur eftir 25 mínútur í stöðunni, 15:7.
Sóknarleikur úkraínska liðsins var hægur og fremur rúinn sjálfstrausti gegn íslensku vörninni. Ekki bætti úr skák að snemma var farið í að leika sjö gegn sex.
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari gat dreift álaginu á milli leikmanna í fyrri hálfleik án þess að það kæmi niður á þeim yfirburðum sem íslenska liðið hafði. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16:9. Úkraínska liðið skoraði síðasta mark sitt úr vítakasti þegar leiktíminn var úti.
Hertu upp hugann
Úkraínska liðið herti upp hugann í síðari hálfleik. Það hélt áfram að leika með sjö menn í sókn og reyndi eins og kostur var að draga niður í hraða leiksins. Það tókst því og um leið að saxa á forskot íslenska liðsins sem heldur náði ekki að skrúfa upp hraðann. Saman dró með liðunum og varð munurinn minnstur þrjú mörk. Markvarsla Hafdísar Renötudóttur á síðustu mínútum og sigurmark Steinunnar tæpri mínútu fyrir leikslok gerði út um alla vonir úkraínska liðsins.
Innkoma Díönu Daggar
Sem fyrr segir þá tókst aldrei að keyra upp hraðann í síðari hálfleik. Framliggjandi vörn úkraínska liðsins gerði því íslenska lífið leitt. Innkoma Díönu Daggar Magnúsdóttur í sóknina í síðari hálfleik var frábær. Hún keyrði á úkraínsku vörnina hvað eftir að annað og skapaði sér færi sem skiptu mjög miklu máli í erfiðum sóknarleik.
Nýtt hlutverk
Að lokum má heldur ekki gleyma því að íslenska landsliðið er ekki vant að vera í þeirri stöðu á stórmóti að vera með yfirhöndina og eiga að vera sterkara liðið. Þessi staða er ný fyrir öllum því ekki að undra þótt spennan tæki aðeins völdin.
Mörk Íslands: Perla Ruth Albertsdóttir 7, Andrea Jacobsen 4, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 2, Steinunn Björnsdóttir 2, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 11, 44% – Hafdís Renötudóttir 4/1, 29%.
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða
Handbolti.is var í Ólympíuhöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.