Hollendingar eru komnir í milliriðlakeppni Evrópmóts kvenna í handknattleik eftir sigur á Þýskalandi, 29:22, í fyrri viðureign í riðli Íslands í Innsbruck í kvöld. Þar með er ljóst að ef íslenska liðið vinnur Úkraínu í kvöld þá verður viðureign Íslands og Þýskalands á þriðjudaginn úrslitaleikur um það hvort liðið fylgir Hollendingum í milliriðil í Vínarborg.
Hollendingar voru marki yfir í hálfleik, 15:14. Vörn liðsins var frábær í síðari hálfleik og Þjóðverjar áttu ekkert svar í sóknarleiknu. Engu máli skipti þótt Þjóðverjar færu í sjö manna sóknarleik um miðjan síðari hálfleik.
Ekki blés byrlega framan af fyrir hollenska liðinu. Þjóðverjar léku við hvern sinn fingur og voru yfir, 10:4, eftir rúmlega 15 mínútur. Eftir leikhlé skelltu Hollendingar í lás í vörninni og þýsku konurnar voru gjörsamlega ráðalausar.
Dione Housheer var markahæst í hollenska landsliðinu með sjö mörk. Zoë Sprengers var næst með sex mörk. Yara Ten Holte, sem var miður sín í leiknum við íslenska liðið, varði allt hvað af tók í kvöld, alls 16 skot, 42%.
Alina Grijseels skoraði fimm mörk fyrir þýska liðið og var markahæst. Nina Engel skoraði fjórum sinnum.