„Tilfinningin er frábær og ég er mjög stolt af liðinu,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir fyrsta sigur íslenska landsliðsins á Evrópumóti í kvöld þegar úkraínska landsliðið var lagt að velli, 27:24, í annarri umferð riðlakeppninnar. Framundan er úrslitaleikur við Þýskaland á þriðjudaginn um sæti í undanúrslitum.
„Við lékum mjög vel í fyrri hálfleik en duttum svo aðeins niður í síðari hálfleik en mér fannst við alltaf vera með þær. Kannski smá hætta í lokin en samt, við vorum alltaf að fara að klára þetta,“ sagði Elín Klara ennfremur.
Elínu Klöru líst vel á viðureignina við Þýskaland á þriðjudagskvöldið. „Við mætum pressulausar og leggjum allt í leikinn.“
Það var áhrifamikil stund í leikslok þegar stuðningsmenn íslenska landsliðsins og leikmenn sungu saman Ferðalok.
„Stuðningsmennirnir eru ótrúlegir. Maður fann fyrir gæsahúð,“ sagði Elín Klara en nánar er rætt við hana í myndskeiði í þessari frétt.
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða