„Það er frábært að ná þessum fyrsta sigurleik á EM. Stelpurnar eiga það skilið að skrifa sína sögu. Ég er ofboðslega stoltur af þeim,“ segir kampakátur Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í kvöld eftir sigur á Úkraínu, 27:24, á Evrópumótinu í handknattleik kvenna í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í Austurríki. Loksins tókst að brjóta þennan ís.
Arnar segir leik íslenska liðsins hafa verið mjög góðan í fyrri hálfleik og fyrir vikið hafi liðið farið með sjö marka forskot inn í hálfleikshléið, 16:9.
„Í síðari hálfleik var ljóst að það var einhver extra spenna í leikmönnum sem var ekki skrítið. Við vorum öll mjög meðvituð að fyrsti sigurinn var handan við hornið,“ segir Arnar ennfremur um síðari hálfleikinn þar sem ákveðinn neista virtist vanta.
„Það er frábært að vera kominn í þá stöðu að leika úrslitaleik á þriðjudaginn um sæti í milliriðli. Sama hvernig sá leikur fer þá mun hann skipta okkur miklu máli inn í framtíðina. Leikurinn skilar okkur mikilli reynslu inn í framtíðina. Það er pottþétt. Í kvöld njótum við aðeins þessa sigurs en hefjum samt endurheimtina. Á morgun byrjum við að búa okkur undir leik við sterkt þýskt lið,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Ólympíuhöllinni í Innsbruck.
Nánar er rætt við Arnar á meðfylgjandi myndskeiði.
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða