Kórónuveirusmit hefur greinst hjá ungverska liðinu Pick Szeged sem Stefán Rafn Sigurmannsson leikur með. Leikmönnum og starfsfólki hefur verið skipað að fara í einangrun af þessum sökum.
Vegan þessa ríkir óvissa um hvort leikur Pick Szeged og PSG í Meistaradeild Evrópu, sem til stendur að fari fram í Szeged á fimmutdagskvöldið verði háður. Allt eins líklegt er að honum verði frestað.
Félagið sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í gær. Þar segir m.a. að um leið og upp komst að einn innan hóps leikmanna og starfsmanna hafi greinst með kórónaveiruna hafi verið gripið til nauðsynlegra ráðstafana enda hafi viðbragsáætlun verið fyrir hendi innan félagsins. Hér eftir sem hingað til verði allt gert til þess að tryggja heilsu leikmanna og starfsmanna liðsins. Æfingar hafa verið felldar niður meðan gengið er úr skugga um að fleiri smit séu ekki innan hópsins.
Ekki kemur fram hvort sá smitaði sé leikmaður Pick Szeged, tilheyri þjálfarateymi liðsins eða sé í hópi annarra starfsmanna.
Uppfært kl. 12:05: Viðureign Pick Szeged og PSG í Meistaradeild Evrópu sem fram átti að fara á fimmtudaginn hefur verið frestað um ótiltekin tíma, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Evrópu.