„Þetta er að minnsta kost nærri toppnum á landsliðsferlinum. Maður getur ekki beðið um meira en að vera þátttakandi í fyrsta sigurleiknum á EM,“ segir Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir sigurinn sæta á landsliði Úkraínu á Evrópumótinu í handknattleik í gærkvöld.
„Ég er sátt við frammistöðuna hjá okkur, að minnsta kosti í fyrri hálfleik. Síðan fórum við aðeins á rúlla á hópnum í síðari hálfleik þá minnkaði munurinn en mér fannst sigur okkar aldrei vera í hættu,“ segir Andrea en handbolti.is náði tali af henni í hádeginu í dag á hóteli landsliðsins í Innsbruck.
Á morgun leikur íslenska landsliðið gegn þýska landsliðinu úrslitaleik um hvort liðanna tekur sæti í milliriðlakeppni Evrópumótsins. Tapliðið heldur heim á leið en sigurliðið færir sig um set til Vínarborgar á miðvikudaginn.
Andrea hefur leikið með Blomberg-Lippe í þýsku 1. deildinni síðan í haust. Hún segir talsverðan hluta þýska hópsins leika með félagsliðum í heimalandinu. „Þótt við vitum eitt og annað þá snýst viðureignin fyrst og fremst um okkur sjálfar og hvernig við leikum,“ segir Andrea sem á einn liðsfélaga frá Blomberg-Lippe í þýska landsliðinu en önnur sem var í hópnum meiddist helgina fyrir EM og varð að draga sig úr hópnum.
„Við verðum að sýna hvað í okkur býr á morgun,” segir Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Nánar er rætt við Andreu í myndskeiði með þessari frétt.
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða