Fáir þekkja betur til þýsks kvennahandknattleiks en Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona sem er að leika sitt fimmta keppnistímabil í þýsku 1. deildarkeppninni. Díana Dögg segir í samtali við handbolta.is að aðal þýska landsliðsins sé varnarleikur. Leikmenn er líkamlega sterkir og vilji leika fast. Um leið leggi landsliðið mikið upp úr hraðaupphlaupum og að ljúka sóknum í fyrstu, annarri og þriðju bylgju. Uppstilltur sóknarleikur kunni að vera helsti veikleiki liðsins.
Frábær skytta
„Hópurinn er skipaður fjölbreyttum leikmönnum. Nokkuð er um snögga og sterka leikmenn sem sækja mikið einn á einn. Liðið hefur eina frábæra skyttu, Emily Bölk, sem mun örugglega skjóta mikið á markið okkar,“ sagði Díana þegar handbolti.is bað hana aðeins að fara yfir þýska liðið fyrir viðureign Íslands og Þýskalands í lokaumferð F-riðils Evrópumótsins í kvöld. viðureignin hefst klukkan 19.30 í Ólympíuhöllinni í Innsbruck.
Mikil reynsla
„Mikil reynsla er einnig innan þýska hópsins. Þær hafa verið mikið saman og breytingar hafa orðið fáar á síðustu árum. Reyndar er nýr leikmaður í hægri skyttustöðunni sem gæti verið veikleiki,“ segir Díana Dögg.
Veikleikar í sóknarleik
„Í uppstilltum sóknarleik er þýska liðið kannski ekki það allra besta. Megináherslan er lögð á að skora í gegnum fyrsta, annað og þriðja tempó. Varnarleikurinn er hinsvegar aðal liðsins,“ segir Díana Dögg sem bendir á að ekki megi hrapa að ályktunum vegna sjö marka taps Þjóðverja fyrir Hollendingum í fyrradag. Ekki sé langt síðan Þýskaland lagði Holland með 10 marka mun.
Leikmenn eru sárir
„Þetta er hörkulið sem við höfum ekki efni á að vanmeta. Leikmenn eru sárir eftir tapið fyrir Hollandi. Það sást afar vel meðal annars á umfjöllun í þýsku fjölmiðlum. Þær munu koma dýrvitlausar gegn okkur.
Þær eru særðar. Særð dýr eru yfirleitt þau hættulegustu. Við látum það ekkert á okkur fá heldur mætum dýrvitlausar gegn þeim. Við ætlum okkur jafn mikið áfram í milliriðla og þær,“ segir Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Díönu Dögg ofar í þessari grein.
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða