Áfram heldur sigurganga Þóris Hergeirssonar og norska landsliðsins á Evrópumóti kvenna í handknattleik. Í kvöld tók norska landsliðið það hollenska í kennslustund í annarri umferð milliriðils 2 í Vínarborg. Lokatölur, 31:21, eftir að sex mörkum munaði á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 15:9. Norska landsliðið er þar með komið með annan fótinn í undanúrslit mótsins en Hollendingar eiga fyrir höndum viðureign við Dani um annað sæti riðilsins.
Lunde varði allt hvað af tók
Katrine Lunde markvörður og norsku varnarmennirnir slógu hollensku sóknarmennina út af laginu strax í upphafi. Eftir aðeins 11 mínútur var staðan 7:3, Noregi í vil. Þar með tónninn gefinn. Vopnin snerust í höndum hollensku leikmannanna sem virtust ekki hafa nokkra trú á að geta staðið þeim norsku á sporði. Áfram hallaði undan fæti og segja má að hollenska liðið hafi litið út eins og byrjendur á köflum í leiknum.
13 marka munur
Um miðjan síðari hálfleik var staðan 20:11 og nokkru síðar 26:13, Noregi í vil. Ljóst er að Hollendingar verða að herða upp hugann fyrir viðureignina við Dani á miðvikudaginn, takist liðinu á annað borð að fá úrslitaleik um annað sætið.
Katrine Lunde var valin maður leiksins. Hún var lengi vel með yfir 50% markvörslu og sýndi enn einu sinni að hún er sú besta í sinni stöðu í heiminum þrátt fyrir árin 44. Lunde lauk leiknum með 14 varin skot, 42%, eftir að hafa slakað á klónni undir lokin.
🌪️ Camilla Herren 🇳🇴 🤩 pic.twitter.com/AMiwNHEKXi
— HandNews (@HandNewsfr) December 7, 2024
Herrem markahæst
Camilla Herrem var markahæst í norska liðinu með sex mörk, flest eftir hraðaupphlaup þar sem engin átti möguleika á að hlaupa hana uppi. Henny Reistad var næst með fjögur mörk.
Larissa Nüsser var markahæst í hollenska liðinu með fimm mörk.
Kristensen lék Þjóðverjar grátt
Danmörk vann Þýskaland, 30:22, í áðurnefndum milliriðli 2 í Vínarborg síðdegis. Þjóðverjar voru tveimur mörkum undir í hálfleik, 15:13. Þeir náðu góðum kafla snemma í síðari hálfleik og komust yfir, 18:17. Eftir það missti liðið móðinn og Danir léku við hvern sinn fingur og unnu öruggan sigur.
Anna Kristensen var stórkostleg í danska markinu. Hún varði 17 skot, 48%. Gagnrýnisraddir á valið á henni er þagnaðar í Danmörku eftir frábæra frammistöðu á mótinu. Kristensen, sem er markvörður Danmerkurmeistara Esbjerg, var valin fram yfir Söndru Toft sem lengi hefur verið aðalmarkvörður danska landsliðsins auk þess að verja mark Evrópumeistara Györ í Ungverjalandi.
Trine Østergaard og Anne Mette Hansen skoruðu sex mörk hvor fyrir danska landsliðið. Lisa Antl var markahæst í þýska liðinu með fjögur mörk. Stórskyttan Emily Bölk stóð ekki undir nafnbótinni í leiknum.
Einstefna í síðari hálfleik
Slóvenar unnu Svisslendinga, 34:25, í fyrsta leik dagsins í Vínarborg og unnu þar með sinn fyrsta leik í milliriðlakeppninni. Slóvenar tóku öll völd í síðari hálfleik eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 17:16.
Sviss er ennþá án stiga í milliriðlinum og mætir Hollandi á mánudaginn og Noregi á miðvikudaginn.