Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold leikur á morgun þriðja úrslitaleikinn á viku þegar það mætir Mors-Thy í úrslitum dönsku bikarkeppninnar í karlaflokki. Aalborg lagði í dag GOG, með Viktor Gísla Hallgrímsson landsliðsmarkvörð innanborðs, 35:31, í undanúrslitum Jyske Bank Boxen í Herning á Jótlandi.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg-liðsins sem lék til úrslita í Meistaradeild Evrópu á sunnudaginn var og oddaleik um danska meistaratitilinn á miðvikudagskvöld. Reyndar er vika í dag síðan Aalborg lagði PSG í undanúrslitum Meistaradeildar. Leikmenn og þjálfarar eru þar með í góðri æfingu að leika úrslitaleik um þessar mundir.
Viktor Gísli náði sér ekki fullkomlega á strik í dag og varði fimm skot.
GOG er ríkjandi bikarmeistari. Liðið vann bikarinn í haust eftir að úrslitahelgin sem fram átti að fara fyrir ári var flutt fram á haustið vegna kórónuveirunnar.
Fyrr í dag máttu Elvar Örn Jónsson og félagar í Skjern bíta í það súra epli að tapa fyrir Mors-Thy í hinni viðureign undanúrslitanna, 33:28. Elvar Örn skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar. Skjern og GOG mætast í leiknum um bronsverðlaunin og verður það um leið síðasti leikur Elvars Arnar fyrir Skjern. Hann verður liðsmaður Melsungen í Þýskalandi á næsta keppnistímabili.
- Dagskráin: Í mörg horn á líta innanlands og utan
- Haukar mæta Lviv tvisvar á Ásvöllum um helgina
- Molakaffi: Sabate hættir, Filter, lögðu árar í bát, Kündig
- Þessir verða ekki með á HM í janúar
- Dagur stýrði Króötum til öruggs sigurs á Slóvenum – öll úrslit vináttuleikja