Gummersbach og Göppingen unnu leiki sína í þýsku 1. deildinni í handknattleik en bæði lið hafa Íslendinga innan sinna vébanda. Þriðja liðið sem lék í dag í þýsku 1. deildinni og hefur tengsl við Íslendinga, Leipzig, tapaði hinsvegar á útivelli fyrir HSV Hamburg, 33:32.
Sigur Göppingen á Lemgo, 29:22 var öllum sem að liðinu standa afar kærkominn eftir slakt gengi á leiktíðinni. Serbneski markvörður Göppingen, Tibor Ivanisevic, var í miklum ham og varði 15 skot, 43%, Ekki síst gerði hann leikmönnum Lemgo gramt í geði í fyrri hálfleik. Ýmir Örn Gíslason, fyrirliði Göppingen skoraði ekki mark að þessu sinni.
Teitur Örn er kominn á fullt
Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar þegar Gummersbach vann HC Erlangen í Schwalbe-Arena í Gummersbach, 28:24. Selfyssingurinn er kominn á góðan skrið eftir meiðsli sem héldu honum frá keppni í á þriðja mánuð fyrr í vetur.
Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach-liðinu lögðu grunn að sigrinum með afar góðum fyrri hálfleik. Þeir voru átta mörkum yfir að honum loknum, 17:9. Miro Schluroff var markahæstur með sjö mörk í sjö skotum.
Naumt tap í Hamborg
Franz Semper minnkaði muninn fyrir Leipzig í eitt mark, 33:32, 40 sekúndum fyrir leikslok í Hamborg í dag. Nær komust liðsmenn Leipzig, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar ekki. Þeim lánaðist ekki að skora jöfnunarmarkið. Leikmönnum HSV tókst að hanga á sigrinum eins og hundur á roði.
Leipzig var sex mörkum yfir í hálfleik, 19:13, en missti forskotið niður á fyrri hluta síðari hálfleiks. Eftir að HSV Hamborg jafnaðimmetin, 22:22, þegar um 11 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, tók við háspennuleikur.
Sjö íslensk mörk
Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Leipzig og gaf þrjár stoðsendingar. Andri Már Rúnarsson skoraði tvisvar.
Í fjórða leik dagsins vann THW Kiel lið Eisenach, 37:33, í Eiseanch.
Viðureign Füchse Berlin og SC Magdeburg hófst klukkan 17.
Staðan í þýsku 1. deildinni: