Ungverjar voru fyrstir til þess að innsigla sæti í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í handknattleik í kvöld. Ungverjar unnu Rúmena í þriðju og næst síðustu umferð milliriðils eitt í Debrecen, 37:29. Þetta var sjötti sigur ungverska liðsins í mótinu en það hefur verið afar sannfærandi í þeim öllum. Síðasta viðureignin í milliriðli verður gegn heimsmeisturum Frakka á miðvikudaginn.
Mikill hraði var í leiknum á fyrstu 20 mínútunum og var nánast skorað í hverri sókn. Aðeins dró af rúmenska liðinu þegar á leið og Ungverjar voru með fimm marka forskot í hálfleik, 20:15.
Ungverska liðið hélt sínu striki í síðari hálfleik með afar góðum varnarleik og hröðum og skemmtilegum sóknarleik. Rúmenska liðið átti fá svör og ekki bætti úr skák að markverðir liðsins vörðu vart skot.
Fara Frakkar sömu leið?
Frakkar mæta Svíum í síðasta leik þriðju umferðar í milliriðli eitt í Debrecen klukkan 19.30. Franska liðið þarf a.m.k. jafntefli í viðureigninni til þess að fylgja Ungverjum eftir í undanúrslit.
Katrin Klujber skoraði 10 mörk og var markahæst í ungverska liðinu. Viktória Gyori-Lukács var næst á eftir með fimm mörk.
Alls skoruðu 11 leikmenn ungverska liðsins að þessu sinni.
Lorena Gabriela Ostase var atkvæðamest hjá Rúmenum með sex mörk.