Eftir hafa leikið á útivelli í tveimur fyrstu umferðum Evrópubikarkeppni kvenna ætla Haukar að leika báðar viðureignir sínar við HC Galychanka Lviv frá Úkraínu í 16-liða úrslitum á Ásvöllum í næsta mánuði. Valur ætlar á hinn bóginn að leika heima og heiman gegn Málaga Costa del Sol í 16-liða úrslitum sömu keppni.
Fyrri viðureign Hauka og HC Galychanka Lviv fer fram á Ásvöllum laugardaginn 11. janúar og sú síðari á sama stað daginn eftir. Til stendur að hefja leik klukkan 17 í bæði skiptin.
HC Galychanka Lviv tekur um þessar mundir þátt í næst efstu deild pólska handknattleiksins og situr í öðru sæti. Þess vegna stóð til boða að leik annan leikinn í Póllandi en félögin komu sér saman um að báðar viðureignir verði hér á landi.
Haukar ruddu belgíska liðinu KTSV Eupen úr vegi í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar með talsverðum yfirburðum. Um miðjan nóvember sóttu Haukar tvo sigra í greipar leikmanna HC Dalmatinka Ploce til Króatíu.
Valur til Málaga
Íslandsmeistarar Vals hafa ákveðið að mæta spænska liðinu Málaga Costa del Sol heima og að heiman. Fyrri viðureignin fer fram í Ciudad Deportiva Javier Imbroda á Málaga laugardaginn 11. janúar. Viku síðar eigast liðin við á nýjan leik í N1-höllinni á Hlíðarenda.
Valur lék tvisvar gegn Zalgiris Kaunas í Litáen í október og mætti síðan sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad HK heima og að heiman í fyrrihluta síðasta mánaðar og vann sannfærandi í bæði skipti.