Norska landsliðið innsiglaði efsta sæti milliriðils tvö á EM kvenna í kvöld með fimm marka sigri á Þýskalandi, 32:27, í Vínarborg, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik. Þetta var sjötti sigur Noregs á mótinu. Víst er að Noregur mætir annað hvort Ungverjalandi eða Frakklandi í undanúrslitum á föstudaginn.
Síðasti leikur norska landsliðsins verður á miðvikudagskvöld gegn landsliði Sviss sem ekki hefur unnið leik til þessa í milliriðli.
Noregur lék af fullum þunga í fyrri hálfleik og virtist ætla að sigla öruggum sigri í höfn í síðari hálfleik. Þýska liðinu tókst aðeins að velgja Þóri Hergeirssyni og liðsmönnum undir uggum á síðustu tíu mínútunum með því að minnka muninn tvisvar í þrjú mörk, m.a. 30:27. Nær komst þýska liðið ekki. Það var óheppið, átti m.a. stangarskot á autt norskt mark í stöðunni 30:27, þegar tvær mínútur voru til leiksloka.
Henny Reistad skoraði níu mörk fyrir norska landsliðið. Stine Skogrand, Kari Brattset Dale, Sanna Solberg-Isaksen og Thale Rushfeldt Deila skoruðu fjögur mörk hver.
Alina Grijseels, Annika Lott, Alexia Haug og Viola Leuchter skoruðu fjögur mörk hver fyrir þýska landsliðið.