Olísdeildarlið Fjölnis hefur orðið fyrir áfalli en staðfest hefur verið að stórskyttan Haraldur Björn Hjörleifsson sleit krossband í viðureign Fjölnis og KA í Olísdeildinni undir lok síðasta mánaðar. Af þessari ástæðu leikur Haraldur Björn ekki fleiri leiki á yfirstandandi keppnistímabili.
Haraldur Björn sagði við handbolta.is í morgun að hann fari í aðgerð snemma í janúar þar sem krossbandið verður lagað. Eftir það tekur við endurhæfing næstu mánuði en Haraldur Björn stefnir á að mæta sterkari til leiks.
Haraldur Björn hefur skorað 42 mörk með nýliðum Fjölnis í 11 leikjum Olísdeildar á leiktíðinni. Hann gekk til liðs við Fjölni í sumar frá Aftureldingu eftir að hafa leikið sem lánsmaður með Grafarvogsliðinu á síðari hluta síðasta tímabils í Grill 66-deildinni og líkað vel í vistinni.
Haraldur Björn skoraði þá 34 mörk í sjö leikjum Grill 66-deildar auk 12 marka í fimm leikja rimmu Fjölnis og Þórs í umspili um sæti í Olísdeildinni í vor.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.