„Markvarslan var ekki góð og vörnin var ekki nógu góð,“ segir Jón Ómar Gíslason markahæsti leikmaður Gróttu með 10 mörk í fimm marka tapi liðsins fyrir Fram, 38:33, í 14. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal í kvöld. Vandi Gróttu heldur áfram en liðið hefur ekki unnið leik í Olísdeildinni í rúma tvo mánuði.
„Við höfum verið í lægð en teljum okkur þó að vera á leiðinni til baka og í rétta átt. Við verðum betri eftir áramót,“ segir Ísfirðingurinn galvaskur hann hefur verið með betri leikmönnum Gróttu á leiktíðinni auk þess að vera næst markahæstur í Olísdeildinni.
Framarar voru skarpari á köflum í vörninni og það skildi á milli. „Ég held að Framarar hafi farið óvart í 5/1 vörn undir lok síðari hálfleiks og þá skildi á milli liðanna. Það komu sæmilegir kaflar í varnarleikinn okkar en heilt yfir var hún alls ekki nógu góð. Munurinn á liðunum þegar upp var staðið lá í varnarleiknum,“ segir Jón Ómar ennfremur.
Jón Ómar viðurkenndi að síðustu vikur hafi verið erfiðar hjá Gróttumönnum sem auk þess að vera í áttunda til níunda sæti deildarinnar eftir frábæran fyrsta mánuð á leiktíðinni, eru einnig fallnir úr leik í Poweradebikarnum.
„Það er samt meiri vilji og baráttu í mönnum en var á tímabili. Við eigum bara eftir að hitta á leik. Framundan er nægur tími fyrir menn til þess að koma sér í gang. Það býr meira í liðinu en við höfum sýnt,“ segir Jón Ómar Gíslason leikmaður Gróttu.
Staðan í Olísdeildinni.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Jón Ómar í þessari grein.