- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mánudagurinn verður væntanlega tilfinningaríkur

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í viðureign Noregs og Ungverjalands í undanúrslitaleiknum í gær. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

„Mánudagurinn verður væntanlega tilfinningaríkur. Þá horfir til þess að kafla í lífi mínu verður lokið. Þá tekur eitthvað nýtt við. Ég hlakka til þess en svo sannarlega mun ég sakna landsliðsins og hópsins í kringum hann,“ sagði Þórir Hergeirsson á blaðamannafundi í tengslum við úrslitahelgi Evrópumóts kvenna í handknattleik.

Þórir stýrir norska landsliðinu í síðasta sinn á morgun þegar liðið mætir danska landsliðinu í úrslitaleik Evrópumóts kvenna í handknattleik í Vínarborg.

13 úrslitaleikir – 10 sigrar

Þórir tók við sem landsliðsþjálfari Noregs í ársbyrjun 2009 eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari frá 2001. Eftir að Þórir tók við 2009 hefur Noregur leikið 13 úrslitaleiki á stórmóti og unnið 10 þeirra. Þar af eru sex sigrar í sjö úrslitaleikjum á EM. Enginn landsliðsþjálfari hefur unnið fleiri gullverðlaun en Þórir, tíu.
Þórir hefur sagt í viðtölum síðustu daga að hann viti ekki hvað taki við hjá sér þegar hannn hefur stimplað sig út í síðasta sinn hjá norska handknattleikssambandinu.

Frí í janúar og fram í febrúar

„Ég veit það ekki. Ég ætla bara að gera eitthvað annað. Ég ætla að taka mér smá frí í janúar og fara kannski eitthvað út í febrúar. Svo ætla ég að stokka spilin og finna út úr því í rólegheitum,“ segir Þórir í viðtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson íþróttafréttmann RÚV.

Réttur tími og réttur staður

Þórir segir að þegar hafi hann fundið fyrir áhuga en hann ætli ekki að ana að neinu eða stökkva á hvað sem er eftir að hafa unnið með besta kvennalandsliði heims í 23 ár.

„Ég ætla ekki að hoppa í eitthvað. En ég er alveg til í að skoða eitthvað fram í tímann. En það þarf að vera réttur tími og réttur staður. Það getur vel verið að ég fari eitthvað allt annað,“ segir Þórir ennfremur í fyrrgreindu viðtali á RÚV sem nálgast má hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -