„Það hefur verið góður stígandi í liðinu sem ég er mjög sáttur með. Ekkert er þó ennþá í hendi. Við erum ennþá í baráttunni og tökum bara einn leik fyrir í einu,“ segir Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs Akureyri af yfirvegun en handbolti.is hitti Halldór Örn á Hlíðarenda í gær eftir að liðið vann Val2, 37:29, í Grill 66-deild karla. Þórsarar hafa unnið átta af níu leikjum sínum í deildinni og eru í efsta sæti þegar komið er vetrarhlé.
Hver leikur hefur sitt líf
„Ég er mjög ánægður með liðið mitt og hvernig við erum að koma inn í leikina og leika í þeim. Ég legg mikið upp úr því að menn séu alltaf á hundrað prósent gasi hver sem andstæðingurinn er. Hver leikur hefur sitt líf og þá þarf að klára, hvern og einn,“ segir Halldór Örn eftir tap fyrir Víkingi í fyrstu umferð í Reykjavík hafa Þórsarar ekki tapað leik.
Lærðum af Víkingsleiknum
„Við lærðum af leiknum við Víkinga í fyrstu umferð. Síðan höfum við mætt Víkingi aftur og erum með betri innbyrðis stöðu gegn þeim. En það er ennþá töluvert eftir af mótinu og mér er í fersku minni hvað gerðist í vor,“ sagði Halldór Örn og vísar til þess að Þór tapaði í umspili um sæti í Olísdeildinni fyrir Fjölni í rimmu sem fór í oddaleik. Halldór Örn vill forðast í lengstu lög að endurtaka leikinn og ætlar sér efsta sæti Grill 66-deildarinnar og komast hjá umspilinu.
Með báða fætur á jörðinni
Halldór Örn er með báða fætur á jörðinni þótt úlitið sé gott hjá Þórsurum í keppninni um efsta sæti deildarinnar, ekki síst með tilliti til hvaða leikir eru eftir.
Þórsarar fengu nokkra leikmenn til félagsins í sumar þar á meðal uppalda Þórsara. Má þar m.a. nefna Hafþór Má Vignisson, Þórð Tandra Ágústsson og Odd Gretarsson en sá síðastnefndi sneri heim eftir áratug í atvinnumennsku í Þýskalandi. Halldór Örn þjálfari finnur greinilega til ábyrgðar sinnar við að koma liðinu saman og búa það sem best undir að vinna deildina. Hann segist ekkert freista þess að horfa til næsta tímabils.
Erum enn að spila okkur saman
„Við fengum leikmenn til okkar í sumar og erum ennþá að spila okkur saman. Ef við förum upp þá þurfum við að bæta við okkur. Við erum hinsvegar ekki komnir upp og fyrr en það gerist getum við ekki farið að huga að næsta vetri,“ segir Halldór Örn.
Næstu vikur tekur við nýtt undirbúningstímabil hjá Þórsliðinu enda er ekki leikur aftur Grill 66-deildinni fyrr en 30. janúar gegn öflugu liði Fram2 sem gert hefur sumum andstæðingum sínum skráveifu í vetur og tímabilið á undan.
„Nú hefst nýtt æfingatímabil. Mikilvægt er að við höldum okkar æfingarútínu út í gegn. Við verðum að bæta í. Annað kemur ekki til greina,“ segir Halldór Örn.
Talsverður efniviður
Spurður um hvort talsverður efniviður sé fyrir hendi í yngri flokkum Þórs segir Halldór Örn svo vera. Þjálfarar yngri flokka félagsins vinna gott starf en yfirþjálfari yngri flokkar er Oddur Gretarsson sem flutti heim frá Þýskalandi í sumar.
„Við erum með góðan fjölda í öllum flokkum. Áfram verður haldið að hlúa að yngri flokkunum. Nokkrir leikmenn úr 3. flokki hafa fengið tækifæri með meistaraflokksliðinu í vetur. Ég hef reynt að gefa þeim mínútur í leikjum okkar eftir því sem kostur hefur verið á. Á sama tíma erum við í úrslitaleik í hverri umferð í Grill 66-deildinni vegna þess hversu fáir leikirnir eru,“ segir Halldór Örn Tryggvason þjálfari karlaliðs Þórs, efsta liðs Grill 66-deildarinnar.
Nánar er farið yfir sviðið í myndbandsviðtali við Halldór Örn sem er að finna ofar í þessari grein.
Grill 66-deild karla – fréttasíða.
Staðan í Grill 66-deildunum.