Tvö efstu lið dönsku úrvalsdeildarinnar í karlaflokki, GOG og Aalborg Håndbold, juku forskot sitt á næstu lið á eftir í dag. Aalborg lagði liðsmenn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia HK, 32:30, í Álaborg og GOG lagði Kristján Örn Kristjánsson, Donna, og liðsmenn Skanderborg AGF, naumlega 35:34, á heimavelli. Donni skoraði eitt mark í leiknum og var einu sinni vikið af leikvelli.
GOG og Aalborg Håndbold hafa 27 stig hvort eftir 16 leiki, sex stigum á undan Fredericia HK sem er í þriðja sæti.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki mark fyrir Fredericia í leiknum í Álaborg. Arnór Viðarsson var fjarverandi. Marti Nagy fyrrverandi markvörður og íhlaupamaður hjá Fredericia um þessar mundir varði 12 skot í markinu, 31%.
Sigur hjá Guðmundi Braga
Guðmundur Bragi Ástþórsson fagnaði sigri með samherjum sínum í Berringbro/Silkeborg þegar þeir tóku á móti TTH Holstebro sem Arnór Atlason þjálfar, 36:27. Guðmundur Bragi skoraði tvö mörk úr vítaköstum og átti eina stoðsendingu.
Jón Ísak Halldórsson var ekki í leikmannahópi TTH Holstebro að þessu sinni. Holstebro situr í níunda sæti með 16 stig eins og Skjern og SønderjyskE.
Bjerringbro/Silkeborg er í fjórða sæti deildarinnar með 19 stig eftir 16 leiki, er tveimur stigum á eftir Fredericia HK í þriðja sæti.
Tap eftir sigur á miðvikudag
Eftir stórsigur á Kolding á miðvikudagskvöldið þá tapaði Ribe-Esbjerg á heimavelli í dag fyrir SønderjyskE, 25:22. Elvar Ásgeirsson skoraði tvisvar sinnum fyrir Ribe-Esbjerg og átti tvær stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson stóð nánast alla leikinn í marki Ribe-Esbjerg, varði 10 skot, 32%.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni: