- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tólf ára bið Ungverja á EM er á enda

Ungverjar fagna sigri á Frökkum í leiknum um þriðja sætið á EM í dag. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Ungverjar kræktu í sín fjórðu bronsverðlaun á Evrópumóti kvenna í handknattleik í dag og þau fyrstu frá 2012 þegar landslið þeirrra lagði heimsmeistara Frakka, 25:24, í æsispennandi og skemmtilegri viðureign í Vínarborg. Viktória Gyori-Lukács skoraði sigurmarkið úr hægra horni eftir að hafa fengið hreint ævintýralega sendingu frá Katrin Klujber þegar sókn ungverska liðsins var við það að renna út í sandinn.


Frakkar áttu síðustu almennilegu sókn leiksins en náðu ekki opnun. Endaði sóknin með að ruðningur var dæmdur á liðið. Ungverjar náðu, eftir að hafa tekið leikhlé, að halda boltanum síðustu sekúndurnar og tryggja sér sætan sigur.


Verðlaun til ungverska liðsins eru svo sannarlega verðskulduð eftir afar góðan leik á mótinu. Ungverjar virðast nú vera að uppskera eftir nokkurra ára undirbúning með skemmtilegt lið.
Leikurinn í dag var hnífjafn og spennandi frá byrjun til enda. Nokkrar sveiflur voru þó í fyrri hálfleik. Liðin skiptust á að taka tveggja til þriggja marka rispur. Í síðari hálfleik var jafnt á öllum tölum.


Katrin Klujber var markahæst hjá Ungverjum með níu mörk. Csenfe Kuczora og Viktória Gyori-Lukács skoruðu fimm mörk hvor. Zsófi Szemerey varði 13 skot, 36%.

Grace Zaadi Deuna, Pauletta Foppa og Estella Nze Minko skoruðu fjögur mörk hver fyrir franska landsliðið. Laura Glauser varði vel í fyrri hálfleik en tapaði aðeins niður þræðinum í síðari hálfleik. Hún varði alls 11 skot, 36%. Aðrir markverðir franska liðsins náðu sér ekki á strik en alls var franska liðið með þrjá markverði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -