Akureyringar voru sigursælir á lokahófi Handknattleikssambands Íslands sem haldið var í hádeginu í dag. Árni Bragi Eyjólfsson, leikmaður KA, fór heim með fimm verðlaunagripi og Rut Arnfjörð Jónsdóttir, KA/Þór, fékk þrenn verðlaun. Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara KA/Þórs í kvennaflokki var valinn besti þjálfarinn. Markvörðurinn Matea Lonac var valin besti markvörðurinn og Rakel Sara Elvarsdóttir hlaut nafnbótina efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna.
Blær Hinriksson, leikmaður Aftureldingar, er efnilegasti leikmaður í Olísdeild karla.
Árni Bragi var valinn besti leikmaður Olísdeildar karla, besti sóknarmaður, einnig var hann markahæstur, hlaut háttvísisverðlaun Handknattleikssdómarasamband Íslands, HDSÍ. Til viðbótar féll Valdimarsbikarinn Árna Braga í skaut.
Rut var valin besti leikmaður Olísdeildar kvenna, besti sóknarmaðurinn og hreppti einnig Sigríðarbikarinn.
Tandri Már Konráðsson, Stjörnunni, og Sunna Jónsdóttir, ÍBV, voru bestu varnarmenn Olísdeildanna.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, ÍBV, fékk háttvísisverðlaun HDSÍ.
Aron Kristjánsson, þjálfari deildarmeistara Hauka, var kjörinn þjálfari ársins í Olísdeild karla. Elías Már Halldórsson, HK, og Guðmundur Helgi Pálsson, Aftureldingu, voru valdir þjálfarar ársins í Grill66-deildum karla og kvenna en lið þeirra beggja fóru upp úr Grill66-deildunum og taka sæti Olísdeildunum á næsta keppnistímabili.
Kristján Orri Jóhannsson, liðsmaður Kríu, fékk þrenn verðlaun fyrir framgöngu sína í Grill66-deildinni. Hann var besti leikmaður deildarinnar, fremsti sóknarmaðurinn og sá markahæsti.