Úrslit leiks Stjörnunnar og HK í 12. umferð Olísdeildar karla í handknattleik, 27:27, standa samkvæmt dómi dómstóls HSÍ sem birtur var í morgun. Bæði aðalkröfu og varakröfu Stjörnunnar um að HK yrði dæmdur leikurinn tapaður eða þá leikið yrði á ný var hafnað.
HK skoraði átta síðustu mörk leiksins, þar á meðal úr vítakasti sem dæmt var þegar leiktíminn var að renna út. Stjarnan byggði kæru sína m.a. á að dómarar leiksins hafi litið á upptöku frá leiknum á farsíma til þess að taka ákvörðun um vítakast dóminn. Slík skoðun er sögð vera fyrir utan reglur HSÍ um myndbandsdómgæslu.
Dómarar sögðu fyrir dómi að dómur þeirra hafi ekki verið ákvarðaður eftir þeir litu á upptöku frá leiknum m.a. vegna þess að upptakan var fullnægjandi. Ákvörðun sem þeir tóku strax og leikbrotið átti sér stað hafi staðið.
Rúmt svigrúm
Í dómnum sem féll í morgun og hægt er lesa með því að smella á hlekk neðst í þessari grein segir m.a. að ljóst „að svigrúm dómara til athafna og nýta sér myndbandsupptökur sé rúmt og hvoru tveggja reglur HSÍ um dómara og eftirlitsmenn og reglur um myndbandsupptökur leggja ákvörðunarvaldið um atvik leiks í hendur dómara.“
Ónothæft
Fram kemur í vitnisburði dómara að ekki hafi verið hægt að notast við upptöku Handboltapassans þar sem leiklukkan á vellinum hafi ekki passað við leikklukku í útsendingu og því ekki verið hægt fá úr því skorið hvort leiktíminn hafi verið runninn út eða ekki þegar þeir dæmdu vítakastið í lokin sem HK skoraði jöfnunarmarkið.
Reyndi á aldrei á
„Dómararnir hafi þá ákveðið að taka ákvörðun út frá bestu sýn þeirra á staðreyndir og fullyrða þeir í skriflegum framburði sínum að engin ákvörðun hafi verið tekin út frá myndbandi eða útsendingu af leiknum. Þá gera dómararnir grein fyrir því að þeir hafi ekki verið vissir um það hvort þeir mættu nýta sér upptökur með þessum hætti, en það hafi ekki komið til þess að reyna hafi þurft á það,“ segir í dómnum.
Afdráttarlausrar lýsingar
Ennfremur segir í dómnum:
„Með vísan til afdráttarlausrar lýsingar þriggja dómara sem komu að leik Stjörnunnar og HK, þ.e. tveggja leikdómara og eftirlitsdómara verður að byggja málið á þeim forsendum að engar upplýsingar hafi komið fram á myndskeiði í síma, á meðan á leik stóð, sem hafi haft áhrif á ákvörðun dómaranna. Þannig hafi leikdómarar stöðvað tímann og ráðfært sig við hvorn annan og eftirlitsdómara áður en ákvörðun var tekin sem byggði á þeirri eigin mati á aðstæðum. Er á þeim forsendum hafnað þeirri efnislegu kröfu kæranda að dómarar hafi farið út fyrir leikreglur við töku ákvörðunar. Felur það í sér að hafnað er bæði aðalkröfu og varakröfu kæranda, Stjörnunnar.“