- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afturelding í undanúrslit í annað sinn á þremur árum

Aftureldingarmenn hituðu upp fyrir dansinn í kringum jólatéið með sigurdans í KA-heimilinu í kvöld. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -


Í annarri tilraun með fárra daga millibili tókst Aftureldingu að leggja KA-menn í kvöld í KA-heimilinu í átta liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla, 28:26. Liðin skildu jöfn á sama stað á laugardaginn í Olísdeildinni.

Afturelding verður þar með í undanúrslitum bikarkeppninnar í lok febrúar á næsta ári.

Svo merkilega vill til að þegar Afturelding komst í undanúrslit fyrir tveimur árum, og gerði reyndar gott betur og varð bikarmeistari, náðu Fram og Stjarnan í undanúrslit. Sama staða er uppi núna. Fram komst áfram í kvöld og Stjarnan í gær.


Aftureldingarmenn voru marki yfir í hálfleik í kvöld, 13:12, eftir fremur jafnan fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að vera marki yfir. Í síðari hálfleik var frumkvæðið lengst af í höndum Mosfellinga. Þeim gekk illa að hrista KA-menn af sér. Nokkrum sinnum náði Afturelding þriggja marka forskoti en KA minnkað muninn jafnharðan. Síðast munaði þremur mörkum í stöðunni, 25:22, eftir að Hallur Arason hafði skorað með langskoti, fimm og hálfri mínútu fyrir leikslok.

Leikmenn og þjálfarar Aftureldingar fagna í KA-heimilinu í kvöld. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Birgir Steinn Jónsson kom Aftureldingu tveimur mörkum yfir, 27:25, þegar 42 sekúndur voru til leiksloka með áttunda marki sínu. Logi Gautason minnkaði muninn 22 sekúndum fyrir lok leiktímans. KA-menn þurftu að tefla á tvær hættur og leika maður á mann. Við það grisjaðist vörnin og Blær Hinriksson átti greiða leið að marki KA og innsiglaði sigurinn, 28:26.


Mörk KA: Dagur Árni Heimisson 8, Einar Rafn Eiðsson 7/4, Einar Birgir Stefánsson 4, Ott Varik 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Logi Gautason 2.
Varin skot: Bruno Bernat 7, 30,4% – Nicolai Horntvedt Kristensen 5, 29,4%.

Mörk Aftureldingar: Birgir Steinn Jónsson 8/3, Þorvaldur Tryggvason 4, Árni Bragi Eyjólfsson 4, Harri Halldórsson 3, Hallur Arason 3, Blær Hinriksson 3, Stefán Magni Hjartarson 2, Ihor Kopyshynskyi 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 9, 27,3% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 0.

Tölfræði HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -