Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson eru komnir í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í handknattleik annað árið í röð með liði sínu MT Melsungen eftir sigur á Flensburg, 30:28, í Rothenbach-Halle í Kassel í kvöld. Melsungen komst alla leið í úrslitaleikinn á síðasta tímabili en steinlá fyrir Magdeburg þegar á hólminn var komið. Nú er Magdeburg ekki í undanúrslitum eftir tap í 16-liða úrslitum.
Köln um miðjan apríl
Auk Melsungen eru THW Kiel, Rhein-Neckar Löwen bikarmeistarar 2023, og 2. deildarliðið Balingen-Weistetten í undanúrslitum bikarkeppninnar. Bikarhelgin verður 12. og 13. apríl á næsta ári í Lanxess-Arena í Köln.
Dregið var í undanúrslit strax í kvöld:
THK Kiel - Rhein-Neckar Löwen.
MT Melsungen - Balingen-Weilstetten.
Elvar Örn skoraði þrjú mörk í leiknum í kvöld. Þar á meðal innsiglaði hann sigurinn með 30. markinu. Einnig gaf Selfyssingurinn fjórar stoðsendingar. Arnar Freyr skoraði ekki mark. Hornamaðurinn Timo Kastening var markahæstur með sex mörk. Svartfellski markvörðurinn Nebojsa Simic var prýðilegur með 13 skot, 33,3%. Tilkynnt var í kvöld að hann hafi ákveðið að framlengja veru sína hjá Melsungen til ársins 2029.
Simon Pytlick var markahæstur hjá Flensburg með átta mörk. Hollendingurinn Kay Smits var næstur með sjö mörk.
Elliði Snær lét til sín taka
Elliði Snær Viðarsson lét til sín taka í kvöld og skoraði fimm mörk þegar Gummersbach tapaði fyrir THW Kiel í átta liða úrslitum bikarsins í Kiel í kvöld, 36:33. Elliði Snær er að ná sér á strik eftir hlé frá keppni vegna meiðsla.
Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach og gaf fjórar stoðsendingar. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach. Kristjan Horzen var markahæstur með sex mörk.
Emil Madsen var markahæstur leikmanna Kiel með átta mörk. Eric Johansson var næstur með sjö mörk. Þýski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Wolff sló ekki slöku við í markinu. Hann varði 13 skot.
Löwen lagði Eisenach
Í þriðja leik kvöldsins í bikarkeppninni vann Rhein-Neckar Löwen liðsmenn Eisenach, 31:28.
Í gær vann Balingen-Weilstetten lið Coburg á útivelli, 38:33. Daníel Þór Ingason leikur með Balingen.