- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leita eftir frammistöðu frá fyrsta degi burt séð frá hver andstæðingurinn er

- Auglýsing -


„HM-hópurinn kemur saman 2. janúar til fyrstu æfingar. Ég á eftir að skoða það betur hvort og hvað þá við gerum á milli jóla og nýárs,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla um fyrstu skrefin í undirbúningi landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið sem hefst 14. janúar. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á mótinu verður gegn landsliði Grænhöfðaeyja 16. janúar. Landsliðið fer af landi brott 8. janúar og mætir sænska landsliðinu í tvígang í Svíþjóð, 9. og 11. janúar.


Nærri helmingurinn af þeim 18 leikmönnum sem Snorri Steinn valdi í landsliðshópinn fyrir HM leikur með félagsliðum sínum á milli jóla og nýárs. Þar af leiðandi getur fyrsta æfingin hjá öllum hópnum ekki orðið fyrr en 2. janúar.

Full mikið copy og paste

„Annan janúar hefst þessi formlegi stórmótaundirbúningur sem allir þekkja. Allir leikmennirnir tekið þátt í honum fyrir önnur stórmót. Undirbúningurinn er full mikið copy og paste frá síðustu árum. Ég viðurkenni það alveg en um leið kemur ekkert í veg fyrir að við munum láta hann nýtast okkur vel,“ segir Snorri Steinn en vitað var að hann hafði áhuga á að sleppa við landsleikina við Svía. Hjá þeim var ekki komist vegna samkomulags sem gert var við Svía fyrir löngu síðan.

Vill sjá ákefð og læti

Snorri Steinn segir að þrátt fyrir að ekki verði nema hluti hópsins hér á landi á milli jóla og nýárs þá komi til greina að þeir sem á landinu verða komi saman og æfi.

„Allir leikmenn landsliðsins eru atvinnumenn í handknattleik. Þeir vita hvað þarf til að ná árangri. Ég treysti þeim alveg til þess að vera klárir í slaginn 2. janúar. „Við munum ekki lulla í gegnum undirbúningstímann sem við höfum. Ég vil sjá ákefð og læti frá fyrsta degi og fram til 16. janúar,“ segir Snorri Steinn ákveðinn.

Ekkert gefið

Engu breytir í huga landsliðsþjálfarans þótt fyrirfram sé reiknað með að tveir fyrstu leikir riðlakeppninnar verði gegn landsliðum sem fyrirfram teljist veikari og íslenska liðið eigi að eiga vinninga í báðum leikjum næsta vísa.

Sama hver andstæðingurinn er

„Þegar slakað er á í íþróttum þá færðu það væntanlega í bakið. Stórmót eru engin tilviljun. Þegar það hefst þá verða menn bara að vera klárir. Ég leita bara eftir frammistöðu hjá mönnum strax á fyrsta degi óháð því hver mótherjinn er hverju sinni.“

Eitt atriði í einu

Markmið fyrir HM verður að vanda að ná sem lengst en um leið að stíga eitt skref í einu. „Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að einbeita okkur að fáum atriðum í einu. Lykilatriði til að ná árangri í milliriðlakeppninni verður að vinna riðlakeppnina í upphafi. Áður en lengra verður farið er hollt fyrir okkur að einbeita okkur að því í upphafi að vinna riðilinn og taka svo stöðuna,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolt.is.

Lengra myndskeiðsviðtal við Snorra Stein er að finna ofarlega í þessari grein.

Sjá einnig:

Þrír HM-nýliðar í hópnum sem Snorri Steinn valdi

Ekki ljóst hvaða áhrif fjarvera Ómars Inga hefur

Björgvin Páll jafnar HM-met Guðjóns Vals

A-landslið karla – fréttasíða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -