Tumi Steinn Rúnarsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar þegar Alpla Hard vann Linz á útivelli, 38:27, í 14. umferð austurrísku 1. deildarinnar í handknattleik í gær. Liðin mættust í úrslitum um austurríska meistaratitilinn í vor og hafði Linz betur. Meistaraliðið átti ekki roð í Hard-liðið í gær þrátt fyrir að leika á heimavelli.
Króatinn Ante Tokic fór á kostum hjá Alpla Hard í leiknum. Hann skoraði 14 mörk í 15 skotum og gaf eina stoðsendingu.
Hannes Jón Jónsson er að vanda þjálfari Alpla Hard. Liðið er sem fyrr í öðru sæti deildarinnar með 22 stig eftir 14 leiki. BT Füchse er efst með 23 stig. Krems er í þriðja sæti stigi á eftir Alpla Hard.
Hlé verður nú gert á keppni í austurrísku deildinni fram í febrúar.
Stöðuna í austurrísku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.