- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viggó seldur til HC Erlangen – kveður Leipzig um áramótin

Viggó Kristjánsson verður leikmaður HC Erlangen frá og með 1. janúar. Ljósmynd/HC Erlangen
- Auglýsing -


Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik verður leikmaður HC Erlangen frá og með 1. janúar. Félagið hefur keypt hann undan samningi við SC DHfK Leipzig. Þetta var staðfest í morgun og leikur Viggó sinn síðasta leik fyrir SC DHfK Leipzig hinn 27. desember gegn Hannover-Burgdorf.


Eins og kom fram á handbolti.is í fyrradag þá lögðu forráðamenn HC Erlangen, sem er með bækistöðvar í Nürnberg, allt kapp á að fá Viggó til félagsins. Voru þeir m.a. tilbúnir að greiða 250 þúsund evrur fyrir Seltirninginn sem var með samning við SC DHfK Leipzig frá á mitt ár 2027.

Viggó, sem varð 31 árs fyrr í mánuðinum, er ætlað að vera lykilmaður í uppbyggingu HC Erlangen á næstu mánuðum en liðið er í næst neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með 5 stig. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu HC Erlangen þá hafa forráðamenn félagsins í hyggju að styrka liðið enn meira fyrir átökin sem framundan eru í þýsku 1. deildinni á nýju ár. Eins og staðan er þá er framundan lífróður fyrir sæti í efstu deild.

Viggó verður annar íslenski handknattleiksmaðurinn til að leika með HC Erlangen. Sigurbergur Sveinsson reið á vaðið leiktíðina 2014/2015 þegar félagið átti í fyrsta sinn lið í efstu deild. 
Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfaði HC Erlangen 2017 til 2020. Síðar var Ólafur Stefánsson aðstoðarþjálfari hjá liðinu 2022 til 2023.
Sveinn Jóhannsson samdi við HC Erlangen fyrir nokkrum árum en lék ekki með liðinu þegar á hólminn var komið. Meiðsli komu í veg fyrir að samningur Sveins tók ekki gildi.
Upplýsingar hafa verið uppfærðar.

Hjá Leipzig frá 2022

Viggó gekk til liðs við SC DHfK Leipzig sumarið 2022 eftir tveggja ára veru hjá Stuttgart. Þar áður hafi hann verið hjá Wetzlar um skeið og einnig SC DHfK Leipzig eftir að hafa komið fyrst inn í þýska handboltann sumarið 2019 að lokinni tveggja ára veru með West Wien í Austurríki.

Meðal þeirra markahæstu

Á síðustu árum hefur Viggó verið á meðal markahæstu og stoðsendingahæstu leikmanna þýsku 1. deildarinnar.

Viggó hefur leikið 59 landsleiki og skoraði í þeim 165 mörk. Honum er ætlað stórt hlutverki í íslenska landsliðinu á HM í næsta mánuði í fjarveru Ómars Inga Magnússonar.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -