Landslið Íslands í handknattleik karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, fór til Þýskalands í morgunsárið. Á morgun hefst hið árlega Sparkassen cup handknattleiksmót í Merzig í Þýskalandi í 36. sinn og tekur íslenska liðið þátt í mótinu að vanda en 30 ár eru liðin síðan Heimir Ríkharðsson annar þjálfari 19 ára landsliðsins fór fyrst með hóp íslenskra pilta á mótið.
Fimm breytingar á síðustu dögum
Tíu breytingar eru á hópnum sem hafnaði í fjórða sæti á EM 18 ára landsliða í ágúst. Þar af hafa Heimir Ríkarðsson og Maksim Akbachev þjálfara orðið að gera fimm breytingar á síðustu dögum vegna meiðsla meðal piltanna sem valdir voru eða sökum ferðalaga þeirra með fjölskyldum yfir hátíðirnar. Síðast varð Ingvar Dagur Gunnarsson úr FH að afboða þátttöku um helgina eftir að hafa fótbrotnað.
Tvíburar í hópnum
Tvíburabræður eru í hópnum, Mosfellingarnir Harri og Leó Halldórssynir. Leikmannahópurinn fór út í morgun er neðst í þessari frétt.
Átta lið – tveir riðlar
Átta lið reyna með sér á mótinu og hefur þeim verið skipt niður í tvo riðla. Íslenska liðið er í riðli með Slóvenum, Hollendingum og B-landsliði Þýskalands. B-lið Þjóðverja var kallað til leiks á dögunum eftir að Egyptar hættu við þátttöku. Egyptar verða gestgjafar HM í þessum aldursflokki í sumar.
Fyrsti leikur á morgun
Íslensku piltarnir mæta Slóvenum á morgun klukkan 14. Á laugardaginn leika þeir við B-lið Þýskalands fyrri hluta dags og síðdegis gegn Hollendingum.
Krossspil um sæti fimm til átta fara fram á sunnudagsmorgun og litlu síðar verður leikið til undanúrslita. Sætisleikir verða háðir síðdegis á sunnudaginn. Skiljanlega skýrist ekki fyrr en eftir riðlakeppnina síðdegis á laugardag hvorum megin hryggjar íslenska liðið hafnar.
Leikmannahópurinn er skipaður eftirtöldum piltum:
Markverðir:
Jens Sigurðarson, Val.
Sigurjón Bragi Atlason, Aftureldingu.
Aðrir leikmenn:
Andri Erlingsson, ÍBV.
Ágúst Guðmundsson, HK.
Baldur Fritz Bjarnason, ÍR.
Dagur Leó Fannarsson, Val.
Daníel Bæring Grétarsson, Aftureldingu.
Daníel Montoro, Val.
Garðar Ingi Sindrason, FH.
Harri Halldórsson, Aftureldingu.
Elís Þór Aðalsteinsson, ÍBV.
Jason Stefánsson ÍBV.
Jökull Blöndal Björnsson, ÍR.
Leó Halldórsson, Aftureldingu.
Bessi Teitsson Gróttu.
Stefán Magni Hjartarson, Aftureldingu.
Max Emil Lund, Fram.
Útsendingar frá mótinu verður að finna á eftirfarandi slóð:
https://handball-globe.tv/sparkassencup-merzig