Íslenska landsliðið í handknattleik, skipað piltum 19 ára og yngri, vann stórsigur Hollendingum, 29:19, í þriðju og síðustu umferð B-riðils Sparkassen Cup-mótsins í Merzig í Þýskalandi í dag. Piltarnir unnu þar með riðilinn með fullu húsi stiga og leika til undanúrslita klukkan 10.50 að íslenskum tíma við Serba sem lögðu lið Sviss, 21:20, í æsilega spennandi leik í A-riðli í uppgjöri um annað sæti.
A og B-lið Þýskalands mætast í hinni viðureign undanúrslita.
Það er óhætt að segja að íslenska liðið hafi ekki verið með hugann við leikinn framan af. Hollendingar, sem tapað höfðu tveimur fyrstu leikjum sínum á mótinu voru með yfirhöndina framan af og náðu mest fimm marka forskoti. Íslensku piltanir rönkuðu við sér undir lok hálfleiksins og tókst að jafna metin, 11:11, áður en leiktíminn var úti.
Það var allt annað íslenskt lið sem mætti til leiks í síðari hálfleik. Fljótlega dró í sundur með liðunum og ljóst í hvað stefndi. Varnarleikur og markvarsla var grunnurinn að góðum sigri og stór hluti íslensku markanna voru skoruð eftir hraðaupphlaup. Tíu marka öruggur sigur, 29:19, og sæti í undanúrslitum endanlega innsiglað.
Mörk Íslands: Baldur Fritz Bjarnason 6, Garðar Ingi Sindrason 5/2, Bessi Teitsson 4, Andri Erlingsson 3, Ágúst Guðmundsson 2, Daníel Bæring Grétarsson 2, Leó Halldórsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Dagur Leó Fannarsson 1, Jason Stefánsson 1, Max Emil Stenlund 1.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 10, Jens Sigurðarson 2.
Sjá einnig: Piltarnir eru komnir í undanúrslit í Merzig
Baldur Fritz skoraði 13 mörk í naumum sigri