- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kría er „fórnarlamb“ eigin velgengni, ekki Gróttu

- Auglýsing -

„Forsvarsmenn Kríu geta ekki gert þá ósanngjörnu kröfu að Grótta dragi úr eða takmarki þjónustu sína við yngri iðkendur og þá sem keppa undir nafni félagsins til þess eins að þeir fái að keppa í efstu deild,“ segir m.a. í yfirlýsingu sem Grótta hefur sent frá sér undir yfirskriftinni – Kría er „fórnarlamb“ eigin velgengni, ekki Gróttu – vegna fregna um að Olísdeildarlið Kríu fái ekki inni Hertz höllinni, íþróttahúsi Gróttu, til æfinga og keppni á næstu leiktíð og handbolti.is hefur m.a. fjallað um.

„Kría er stakur meistaraflokkur manna sem vilja stunda handbolta á eigin forsendum óháð starfsemi handknattleiksdeildar Gróttu sem ber ekki einungis ábyrgð gagnvart eldri leikmönnum félagsins heldur einnig á viðamiklu yngri flokkastarfi á hverjum einasta degi allan veturinn sem þjónustar upprennandi leikmenn félagsins,” segir í tilkynningu Gróttu sem lesa má í heild hér fyrir neðan.


„Gróttufólk fagnar frábærum árangri Kríu í handbolta og hefur engan áhuga á að leggja stein í götu þeirra. Þvert á móti hefur Grótta stutt Kríu með ráðum og dáðum. Þannig hefur Grótta útvegað Kríu húsnæði til æfinga og leikja án endurgjalds, kostnaður við þátttöku félagsins í Grill 66-deildinni hefur að mestu verið greiddur af Gróttu, Grótta hefur útvegað félaginu búninga o.s.frv.


Það sem Kríumenn kalla blauta tusku í andlitið voru einfaldlega þær köldu staðreyndir sem öll alvöru íþróttafélög þurfa að horfast í augu við. Iðkendur eru margir en aðstaða, mannauður og fjármunir eru takmarkaðir.
Hafa ber í huga að markmið svokallaðra venslafélaga eins og Kríu er að veita reyndum leikmönnum sem af einhverjum ástæðum geta ekki æft og keppt með meistaraflokkum möguleika á því að stunda sína íþrótt á eigin forsendum en jafnframt gefa ungum og efnilegum iðkendum tækifæri á því að æfa og keppa með sér reyndari leikmönnum og öðlast þannig reynslu í verðugum verkefnum.


Í vetur fór svo að Krían ákvað að byggja lið sitt nær einungis á eldri leikmönnum og tækifæri yngra leikmanna voru engin. Ákall hefur verið um það í vetur að efnilegir yngri leikmenn sem ekki hafa komist í meistaraflokk fengju verkefni við hæfi og möguleika á að þroskast sem handboltamenn. Við því ákalli var brugðist á sama hátt, og svo mörg önnur íþróttafélög gera, með því að stofna og skrá til leiks næsta vetur svokallað U lið sem er meistaraflokkslið sem spilar í 2. deild.


Staðreyndin er einfaldlega sú að aðstaðan í Hertz höllinni, íþróttahúsi Gróttu rúmar ekki allar æfingar yngri flokka auk fjögurra meistaraflokka í handbolta, og þar af tveggja í efstu deild. Efsta deild handboltans kallar á sjónvarpsleiki og tímasetningum þeirra leikja verður ekki hnikað en annað á við um leiki í neðri deildum. Fyrir sjónvarpsleiki dugar ekkert minna en besti tíminn fyrir útsendingar og þá þarf allt annað að víkja úr húsinu. Auðséð var að þessir leikir riðla oft öllu starfi í íþróttahúsinu. Því gat Grótta ekki þrátt fyrir góðan vilja orðið við ýtrustu óskum Kríu. Rétt er að taka það fram að Grótta bauð forsvarsmönnum Kríu æfingatíma sem yrðu sveigjanlegir eftir vikum eftir því hvernig dagskráin yrði hverju sinni en því boði var hafnað.


Kría er stakur meistaraflokkur manna sem vilja stunda handbolta á eigin forsendum óháð starfsemi handknattleiksdeildar Gróttu sem ber ekki einungis ábyrgð gagnvart eldri leikmönnum félagsins heldur einnig á viðamiklu yngri flokkastarfi á hverjum einasta degi allan veturinn sem þjónustar upprennandi leikmenn félagsins. Forsvarsmenn Kríu geta ekki gert þá ósanngjörnu kröfu að Grótta dragi úr eða takmarki þjónustu sína við yngri iðkendur og þá sem keppa undir nafni félagsins til þess eins að þeir fái að keppa í efstu deild.


Grótta óskar Kríu mönnum góðs gengis á næsta keppnistímabili og hlakkar til að mæta þeim á vellinum í drengilegri keppni.
Fyrir hönd handknattleiksdeildar Gróttu
Kári Garðarsson
Framkvæmdastjóri Gróttu.”

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -