Kvennalið ÍBV í handknattleik varð fyrir miklu áfalli á dögunum þegar í ljós kom að Marta Wawrzynkowska markvörður er með rifu í krossbandi á hné. Ólíklegt er hún verði með liðinu það sem eftir er af keppnistímabilinu.
Sigurður Bragason þjálfari ÍBV staðfesti tíðindin við handbolti.is. Sagði hann meiðsli Mörtu vera þungt högg inn í leikmannahópinn sem er í harðri baráttu í neðri hluta deildinnar. Marta hefur að margra mati verið jafnbesti markvörður Olísdeildarinnar undanfarin fimm ár.
Kom í ljós í liðþófaaðgerð
„Marta fór í liðþófaaðgerð 3. desember og þá kom þessi skemmd í ljós,“ sagði Sigurður í samtali við handbolta.is. Athygli vakti að Marta var ekki með ÍBV í fyrsta leik árins í Olísdeildinni, gegn ÍR á síðasta sunnudag.
Alveg óvíst er hversu langur tími líður þangað til Marta stendur næst á milli stanganna hjá ÍBV-liðinu sem situr í sjöunda og næst neðsta sæti Olísdeildar.
Samkvæmt tölfræði HBStatz er Marta með 38,5% hlutfallsmarkvörslu það sem af er keppni í Olísdeildinni á keppnistímabilinu, 13,4 skot af jafnaði í leik.
Önnur skoðun framundan
„Hún fer í aðra skoðun í næstu viku. Eflaust verða einhver inngrip í kjölfarið til þess að laga krossbandið. Rifa í krossbandi eru svo alvarleg að hún batnar ekki að sjálfu sér. Það er alveg óvíst hversu lengi Marta verður frá keppni,“ sagði Sigurður ennfremur en hann er skiljanlega miður sín vegna þessarar stöðu enda um að ræða einn mikilvægasta og besta leikmann ÍBV-liðsins á undanförnum árum.
Næsti leikur ÍBV verður á heimavelli á laugardaginn klukkan 14 gegn Stjörnunni.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.