Sænska landsliðið í handknattleik karla varð, eins og það íslenska, fyrir áfalli í viðureign liðanna í Kristianstad Arena í kvöld. Línumaðurinn Max Darj meiddist á hné og eru horfur fyrir þátttöku hans á heimsmeistaramótinu í næstu viku ekki góðar. Michael Apelgren landsliðsþjálfari brást hratt við og kallað inn í hópinn gamalreynda línumann Andreas Nilsson sem nú leikur með Önnereds.
Darj fer í frekari skoðun í fyrramálið. Meiðsli hans koma ofan í fjarveru Oscar Bergendahl leikmanns Magdeburg, sem heltist úr lestinni vegna meiðsla rétt fyrir jól. Bergendahl verður frá keppni a.m.k. til loka febrúar.
Var hættur með landsliðinu
Nilsson, sem gengur undir gælunafningu „stycket“ vegna gríðarlegra líkamsburða, er þrautreyndur línumaður en ákvað að láta gott heita með landsliðinu eftir EM fyrir ári. Eftir 10 ára veru hjá Veszprém í Ungverjalandi flutti Nilsson heim síðasta sumar og gekk til liðs við Gautaborgarliðið Önnereds. Nilsson hefur ákveðið að taka fram landsliðsskóna og svara kalli Apelgren landsliðsþjálfara.
Eins og kom fram í kvöld á handbolti.is meiddist línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson í leiknum við Svía. Sveinn Jóhannsson tekur sæti hans og kemur til Kristianstad á morgun frá Þrándheimi þar sem hann býr og leikur með Noregsmeisturum Kolstad.