Þýska landsliðið undir stjórn Alfreðs Gíslasonar vann brasilíska landsliðið, 32:25, í fyrri vináttuleik þjóðanna að viðstöddum 5.600 áhorfendum í Flensburg í kvöld. Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13. Leikmenn þýska landsliðsins hertu upp hugann í síðari hálfleik og sýndu þá mun betri leik en í þeim fyrri sem tryggði liðinu sigur. Síðari viðureignin fer fram á laugardaginn í Hamborg.
Meiðsli hjá Brössum
Eins og víða annarstaðar í leikjum kvöldsins þá varð brasilíska liðið fyrir skakkafalli þegar einn traustasti leikmaður þess, Hugo Bryan Monte, meiddist á ökkla. Samkvæmt fregnum í kvöld getur svo farið að Monte leiki ekki með brasilíska liðinu á HM.
Zerbe, Mertens, Uscins og Grgic skoruðu fjögur mörk hver fyrir þýska liðið. Rodrigues var atkvæðamestur í brasilíska liðinu með fimm mörk.
Mættu heimsmeisturunum
Landslið Barein, sem Aron Kristjánsson þjálfar, tapaði fyrir heimsmeisturum Dana, 33:17, í Royal Arena í Kaupmannahöfn í kvöld. Um fyrri viðureign liðanna var að ræða. Síðari viðureignin verður á sama stað á annað kvöld.
Eins og við mátti búast áttu Bareinar erfitt uppdráttar gegn Dönum sem þykja sigurstranglegir á fjórða heimsmeistaramótinu í röð. Staðan eftir fyrri hálfleik var 15:7, Danmörku í hag. Mathias Gidsel og Magnus Landin skoruðu sjö mörk hvor fyrir danska liðið.
Nokkrir vináttuleikir fóru fram í kvöld. Úrslit þeirra:
Austurríki – Túnis 32:30 (16:14).
Noregur – Rúmenía 37:26 (19:14).
Þýskaland – Brasilía 32:25 (13:13).
Svíþjóð – Ísland 31:31 (16:16).
Portúgal – Tékkland 32:31 (16:15).
Slóvakía – Argentína 26:30 (11:13).
Pólland – Japan 30:29 (15:18).
Danmörk – Barein 33:17 (15:7).
Fleiri vináttuleikir voru í gærkvöld. Úrslit þeirra leikja er að finna í greininni hér fyrir neðan.
Naumt hjá Degi í Varazdin – úrslit vináttuleikja í kvöld