Sænski línu- og varnarmaðurinn Max Darj verður ekki með landsliði sínu á heimsmeistaramótinu sem hefst í næstu viku. Sænska handknattleikssambandið tilkynnti þetta í dag eftir að Darj hafði farið í læknisskoðun vegna meiðsla í hné sem hann varð fyrir í viðureign Svíþjóðar og Íslands í Kristianstad Arena í gærkvöld.
Eins og kom fram m.a. á handbolti.is í gærkvöld hefur Andreas Nilsson verið valinn til þátttöku með sænska landsliðinu í stað Darj sem er annar línumaður sænska landsliðsins sem meiðist í aðdraganda HM. Hinn er Oscar Bergendahl leikmaður SC Magdeburg sem meiddist á ökkla rétt fyrir jól.
Darj er 33 ára gamall fyrirliði og leikmaður Füchse Berlin í Þýskalandi. Hann hefur leikið liðlega 100 landsleiki á 11 árum með landsliðinu. Darj og var m.a. í sigurliði Svía á Evrópumótinu í Ungverjalandi fyrir þremur árum og var þá valinn besti varnarmaður mótsins.
Sjá einnig: Þessir verða ekki með á HM í janúar