Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði með tveggja marka mun fyrir sænska landsliðinu í síðari vináttuleik liðanna í Malmö Arena í dag, 26:24, eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 14:11. Þetta var síðasti leikur liðanna áður en keppni hefst á heimsmeistaramótinu í næstu viku.
Svíar voru með yfirhöndina nær því allan leikinn þótt ekki hafi verið mikill munur, helst í fyrri hálfleik þegar nokkrum sinnum munaði fjórum mörkum, sænska liðinu í vil.
Varnarleikur íslenska liðsins var góður og markvarslan einnig en Viktor Gísli Hallgrímsson og Björgvin Páll Gústavsson skiptu viðureigninni á milli sín.
Hraðinn var minni í viðureigninni í dag en í fyrradag í Kristianstad Arena. Sóknarleikurinn var ekki eins leiftrandi góður hjá íslensku piltunum og þá og því miður var nokkuð um tapaði bolta, ekki síst í fyrri hálfleik. Segja má að sóknarleikurinn hafi verið nokkuð kaflaskiptur.
Eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik þá reis íslenska liðið upp á afturfæturnar í fyrri hluta síðari hálfleiks og komst yfir, 18:17, eftir liðlega 42 mínútur með marki Viggós Kristjánssonar. Svíar komust yfir á ný voru með stjórn á leiknum til leiksloka.
Þorsteinn Leó Gunnarsson lék talsvert með í sóknarleiknum í síðari hálfleik en hann kom ekkert við sögu í fyrri viðureigninni.
Sveinn Jóhannsson sem kom til móts við liðið í gær lék ekkert með og Einar Þorsteinn Ólafsson fékk nokkur andartök undir lokin.
Mörk Íslands: Elvar Örn Jónsson 4, Viggó Kristjánsson 4, Elliði Snær Viðarsson 3, Teitur Örn Einarsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Janus Daði Smárason 2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Bjarki Már Elísson 1, Haukur Þrastarson 1, Orri Freyr Þorkelsson 1/1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 6, 35,3% – Björgvin Páll Gústavsson 5/2, 25%.
Mörk Svíþjóðar: Lukas Sandell 5, Lucas Pellas 4, Biclas Ekberg 4/4, Erik Johansson 4, Jim Gottfridsson 2, Felix Möller 2, Sebastian Karlsson 2, Jonathan Carlsbogard 1, Albin Lagergren 1, Andreas Nilsson 1.
Varin skot: Fabian Norsten 8, 38,1% – Andreas Palicka 6, 35,3%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.