„Ég er bara mjög spenntur fyrir því að taka þátt í mínu fyrsta stórmóti og er tilbúinn í þetta,“ segir Þorsteinn Leó Gunnarsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Zagreb í dag. Stórskyttan unga féll úr hópnum rétt fyrir EM í fyrra en ári síðar er hann mættur til leiks í Zagreb, staðráðinn í að gera sitt besta.
Mikil vonbrigði í fyrra
„Í fyrra voru það mikil vonbrigði hjá mér að vera ekki með en að þessu sinni þá er ég með. Með það er ég mjög ánægður,“ segir Þorsteinn Leó sem segir sitt hlutverk vera að nokkru leyti óráðið enda leikur hans að mörgu leyti ólíkur flestum öðrum leikmönnum íslenska landsliðsins.
Að skjóta á markið
„Ætli að mitt hlutverk verði ekki fyrst og fremst að kom inn á og skjóta á markið og ná vörn andstæðinganna út. Það verður að koma í ljóst hversu stórt hlutverk mitt verður. Einnig mun skipta máli hvort ég leik vel eða illa. Þetta mun allt koma í ljós,“ sagði Mosfellingurinn glaður í bragði.
Í stöðugri framför
Þorsteinn Leó segist vera betri handknattleiksmaður í dag en fyrir ári síðar. „Ég er í stöðugri framför og er ungur ennþá, á mikið eftir,“ segir Þorsteinn Leó sem gekk til liðs við FC Porto í sumar sem leið og hefur náð frábærum árangri. Þorsteinn er á meðal markahæstu leikmanna deildarinnar í Portúgal, er sannkallaður markvarðaskelfir með þrumuskotum sínum.
„Síðustu ár hafa verið mikið ævintýri allt frá því að ég var 16 ára gamall og ákvað að verða atvinnumaður í handbolta. Mér finnst tíminn hafa liðið hratt, það hafi nánast verið í gær sem markið var sett á þennan stað. Nú er ég orðinn atvinnumaður hjá Porto og landsliðsmaður á stórmóti. Þetta er nánast óraunverulegt,“ segir Þorsteinn Leó ennfremur.
„Á sama tíma má segja að þetta sé allt að byrja hjá mér,“ segir Þorsteinn Leó Gunnarsson.
Lengra viðtal er við Þorstein Leó í myndskeiði inni í þessari frétt.
Sjá einnig við frá febrúar 2021: Þetta er það eina sem mig langar að gera