- Auglýsing -
- Svíinn Per Johansson hefur skrifað undir nýjan samning um þjálfun Evrópumeistara Györ í handknattleik kvenna. Samningurinn gildir fram á mitt árið 2027. Johansson tók við liðinu á síðasta ári og hefur náð fínum árangri en forveri hans var látinn taka pokann sinn eftir að ljóst var að ungverski meistaratitillinn vorið 2024 var gengið liðinu úr greipum. Johansson náði hinsvegar að stýra liðinu til sigurs í Meistaradeild Evrópu nokkrum vikum eftir að hann tók við.
- Dönsku handknattleiksfélögin Ajax og FIF Håndbold hafa gengið í eina sæng undir heitinu HC København. Forsvarsmenn félagsins vonast að sameiningin sé upphaf að öflugu handknattleiksliði í dönsku höfuðborginni í næstu framtíð.
- Merki um notkun á steralyfjum fundust í þvagsýni hjá portúgalska handknattleiksmanninum Miguel Martins en sagt var frá því í fyrradag að hann hafi fallið á lyfjaprófi. Martins verður vitanlega ekki með portúgalska landsliðinu á HM af þessum sökum og tæplega næstu mánuði með danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold.
- Aalborg hefur samið við tvítugan efnilegan norskan handknattleiksmann, Patrick Helland Anderson. Hann kemur til Álaborgar frá Elverum í sumar. Anderson þykir mikið efni en um örvhenta skyttu er að ræða. Hann var aðeins 18 ára gamall orðinn byrjunarliðsmaður hjá Elverum.
- Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari Frederica slær ekki slöku við á leikmannamarkaðnum. Hann hefur krækt í Kristian Hübert Larsen línumann Elverum fyrir næsta keppnistímabil. Larsen er 199 sentimetrar á hæð og 24 ára gamall.
- Auglýsing -