„Tilfinningin var góð, það var fyrst og fremst gott að byrja en ég hafði ekki pælt í því að ég hafi tekið þátt í HM áður,“ sagði Haukur Þrastarson í samtali við handbolta.is í morgun, morguninn eftir að hann lék sinn fyrsta leik á heimsmeistaramóti í sex ár. Haukur steig sín fyrstu skref á heimsmeistaramóti í Þýskalandi 2019.
Framundan er næsti leikur við Kúbumenn á heimsmeistaramótinu á morgun, annar óhefðbundinn mótherji íslenska landsliðsins. „Kannski óhefðbundari en maður er vanur. Ég held að okkur hafi bara tekist vel til í gær, ekki síst í fyrri hálfleik. Við hefðum getað gert betur í síðari hálfleik og leggjum áherslu á að gera betur á morgun,“ sagði Haukur yfirvegaður að vanda.
Spurður um eigin frammistöðu segist Haukur vera sáttur við eigin frammistöðu. „Mikilvægast var að vinna stigin tvö um leið og við vorum að slípa okkur saman fyrir framhaldið. Klárlega er það markmiðið að spila betur í 60 mínútur á morgun og forðast að falla niður eins og við gerðum í gær. Gegn betra liðið hefði okkur verið refsað,“ sagði Haukur Þrastarson landsliðmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is
Lengra myndskeiðsviðtal er við Hauk ofar í þessari grein.
A-landslið karla – fréttasíða.
Landslið Íslands á HM 2025 – strákarnir okkar
HM “25: Leikjadagskrá, úrslit, staðan