Forsvarsmenn grænlenska kvennalandsliðsiins horfa bjartsýnir fram á veginn vegna komandi undankeppni heimsmeistaramótsins fyrir Norður-Ameríku sem fram fer í Chicago í næsta mánuði. Eins og handbolti.is hefur greint frá þá hafa álfurmeistarar Kúbu hætt við þátttöku. Þar með glæðast vonir Grænlendinga um að vinna undankeppnina.
„Möguleikar okkar batna úr því að Kúba verður ekki með í undankeppninni. Það þýðir samt ekki að við eigum HM-farseðilinn vísan,“ segir Akutaaneq Kreutzmann, aðstoðarþjálfari landsliðsins við Kalaalit Nunaata Radioa.
Grænlenski landsliðshópurinn hefur þegar hafið æfingar þótt þjálfarinn, Daninn Anders Friis, dvelji í sóttkví eftir að hafa komið til Grænlands frá Danmörku. Hann verður væntanlega mættur til leiks eftir næstu helgi.
Auk grænlenska landsliðsins taka landslið Bandaríkjanna, Puerto Ríkó, Mexíkó og Dóminíkanska lýðveldisins þátt í undankeppninni sem hefst 23. ágúst.
Kvennalandslið Grænlands hefur einu sinni tekið þátt í lokakeppni HM, fyrir 20 árum á Ítalíu.