„Við gerðum þetta almennilega og þá er eiginlega ekkert meira að segja,“ sagði Janus Daði Smárason einn íslensku landsliðsmannanna í samtali við handbolta.is í Zagreb Arena í kvöld eftir stórsigur á landsliði Kúbu, 40:19, í annarri umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins.
„Við gátum dreift mínútunum vel á milli okkar. Ég held að allir séu góðir skrokknum eftir leikinn og koma með góða upplifun út þessu dæmi. Fara inn í klefa og verið ánægðir með verkið. Næst á dagskrá að búa sig undir mánudaginn,“ sagði Janus Daði og vísar til leiksins við Slóveníu í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudagskvöld klukkan 19.30. Úrslit þess leika ráða miklu um framhaldið, hvort lið fer með fleiri stig í milliriðil og hefur þar með meiri möguleika á að ná lengra í mótinu.
„Þetta er HM og nú er röðin komin að alvöru leikjum,“ sagði Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik.
Lengra viðtal er við Janus í myndskeiði í þessari grein. Þar talar hann m.a. um mikilvægi þess að fá fyrirliðann Aron Pálmarsson inn á völlinn á nýjan leik.