Díana Dögg Magnúsdóttir átti stórleik sem leikstjórnandi hjá Blomberg-Lippe í dag þegar liðið sótti tvö stig í greipar Motherson Mosonmagyarovari KC til Ungverjalands í annarri umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik kvenna, lokatölur, 34:32, í skemmtilegum leik. Blomberg-Lippe hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlakeppninni sem leikin er í fjórum fjögurra liða riðlum.
Díana skoraði þrjú mörk en átti 12 stoðsendingar í leiknum í UFM Aréna í Mosonmagyarovar. Samherji Díönu Daggar, Nieke Kühne fór einnig á kostum og skoraði 12 mörk úr 16 skotum. Blomberg-Lippe var marki yfir í hálfleik, 17:16, eftir að hafa verið undir framan af fyrri hálfleik.
Andrea Jacobsen er enn á meiðslalista Blomberg-Lippe eftir að hafa misstígið sig á æfingu á dögunum.
Pólska liðið KGHM MKS Zaglebie Lubin vann JDA Bourgogne Dijon Handball, 28:27, í Frakklandi í hinni viðureign C-riðils. Lubin hefur þar með fjögur stig eins og Blomberg-Lippe. Liðin mætast í Þýskalandi eftir viku.