- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vaskur hópur svífur á Vængjum Júpíters

Þrír leikmenn Vængjanna, f.v. : Aron Heiðar Guðmundsson, Finnur Jónsson, Andreas Örn Aðalsteinsson. Þeir voru ekki svona glaðbeittir í leikslok í Schenkerhöllinni í kvöld. Mynd/Vængir Júpíters
- Auglýsing -

Vængir Júpíters er nýtt lið í keppni í Grill 66-deild karla en þrátt fyrir það skortir ekki reynslu innan leikmannahópsins sem er fjölmennur og vaskur. Upphaflega stóð til að leika í 2.deild en eftir að opnað var fyrir þátttöku Vængjanna í Grill 66-deildinni var ákveðið að láta slag standa.


„Verkefnið stækkaði mjög skyndilega og þurftum við að stækka og styrkja hópinn,“ sagði Viktor Lekve annar þjálfari liðsins við handbolta.is. Viktor sagði ennfremur að félagið léti sér ekki nægja að senda lið í Grill 66-deildina heldur á einnig að vera með lið í utandeildinni í vetur. Það verður vængjasláttur í kringum Vængi Júpíters á keppnistímabilinu.


Ásamt Viktori verður Arnór Ásgeirsson þjálfari. Aðstoðarþjálfari er enginn annar en landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson, leikmaður Lemgo í Þýskalandi og markakóngur þýsku 1.deildarinnar á síðustu leiktíð. Markvarðaþjálfari er Daníel Freyr Andrésson, markvörður sænska úrvalsdeildarliðsins Guif.


Nokkur vel þekkt andlit úr Olísdeildinni verða í liði Vængja Júpíters á keppnistímabilinu. Má þar m.a. nefna Andra Hjartar Grétarsson, Brynjar Loftsson, Daníel Inga Guðmundsson, Finn Jónsson, Garðar Benedikt Sigurjónsson, Hrafn Valdísarson, Jón Pálsson og Matthías Leifsson, svo nokkurra sé getið. Einnig er að finna í hópnum leikmenn sem hafa gert það gott með öðrum liðum í Grill-deildinni eins og Viktor Jóhannsson, Leif Óskarsson, Jónas Braga Hafsteinsson, Viktor Alex Ragnarsson og Einar Örn Hilmarsson.


Vængir Júpíters fara vestur í Skutulsfjörð á föstudaginn þar sem þeir mæta öðrum nýliðum deildarinnar, Herði, í fyrstu umferð Grill 66-deildar karla í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði. Ljóst er að stálin stinn mætist strax í upphafi og greinilegt á öllu að keppni í deildinni getur orðið afar skemmtileg á keppnistímabilinu.


Leikir 1.umferðar Grill 66-deildar karla:
Föstudagur:

Hertzhöllin: Kría – Fram kl. 19.30
Ísafjörður: Hörður – Vængir Júpíters kl. 19.30
Laugardagur:
Kórinn: HK – Selfoss U 13.30
Origohöllin: Valur U – Víkingur R. kl. 16
Sunnudagur:
Schenkerhöllin: Haukar U – Fjölnir kl. 17

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -