Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH tilkynnti í dag að hann ætli ekki að sækast eftir endurkjöri á aðalfundi handknattleiksdeildar sem fram fer eftir mánuð. Ásgeir, sem setið hefur í stóli formanns í 11 ár sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook-síðu handknattleiksdeildar FH í dag þar sem hann segir frá ákvörðun sinni. Ekki kemur fram hvort sérstakar ástæður búi að baki ákvörðunar hans.
Yfirlýsing Ásgeirs:
„Ég hef ákveðið að gefa ekki áfram kost á mér í formannskjöri á aðalfundi handknattleiksdeildar FH í lok febrúar.
Það hefur verið mikill heiður að leiða starf handknattleiksdeildar FH síðastliðin 11 ár og hlakka ég til að fylgjast með deildinni vaxa og dafna áfram.
Ég þakka ykkur öllum kærlega samstarfið, stuðning og vináttu.
Tími minn hjá FH hefur verið mér ómetanlegur.
Takk fyrir mig.
Við erum FH!
Ásgeir Jónsson
Formaður hkd. FH.“