„Við fundum ekki taktinn á alltof mörgum stöðum í fyrri hálfleik, vorum framan af hikandi í sóknarleiknum. Okkur tókst ekki að ná upp sama varnarleik og áður og þar af leiðandi var markvarslan ekki góð. Ofan á allt þá voru tæknifeilar margir og illa farið með góð færi. Munurinn varð óþarflega stór í hálfleik,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari vonsvikinn þegar handbolti.is náði af honum tali eftir sex marka tap fyrir Króötum í annarri umferð milliriðlakeppni HM í handknattleik í Zagreb Arena í kvöld.
Ekki eins gott og áður
„Strákarnir eiga hrós skilið fyrir að reyna í síðari hálfleik en stundum falla hlutirnir ekki með manni. Á heildina litið var frammistaðan alls ekki eins góð og í fyrri leikjunum. Okkur tókst aldrei að setja Króata undir pressu,“ sagði Snorri Steinn.
Vonin er veik
Spurður um möguleikana sem eru fyrir hendi sagði Snorri Steinn það líklega vera borna von að íslenska landsliðið komist áfram. Til þess verða Króatar að tapa stigi í síðasta leik sínum á sunnudaginn og íslenska landsliðið að vinna Argentínu.
„Nú þurfum við aðeins að ná áttum áður en við snúum okkur að leiknum við Argentínu. Við verðum að klára hann fagmannlega og vinna. Svo sjáum við til en ég held að vonin sé mjög veik,” sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Snorra Stein hér fyrir ofan.