- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ólympíumeistararnir mörðu sigur í Hillerød

Mikkel Hansen lét til sína taka í leiknum við Svía í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Liðin sem mættust í úrslitaleik heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Egyptalandi í janúar, Danir og Svíar, leiddu saman hesta sína í vináttulandsleik að viðstöddum 1.600 áhorfendum í Hillerød í Danmörku í kvöld. Heimsmeistarar Dana mörðu sigur, 31:30, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 15:13.


Danir voru lengst af undir en sjö mörk þeirra gegn þremur sænskum á tíu mínútna kafla þegar á leið síðari hálfleik lagði grunn að naumum sigri.


Liðin búa sig undir keppni á Ólympíuleikunum en bæði verða þau komin til Japan áður en vikan verður úti. Handknattleikskeppni Ólympíuleikanna hefst 24. júlí. Danska og sænska landsliðið verða saman í riðli og mætast í lokumferð riðlakeppninnar.


Danir eru ríkjandi Ólympíumeistarar í handknattleik karla.


Morten Olsen og Emil Jacobsen, landsliðsmenn Dana meiddust. Olsen meiddist í upphitun en Jacobsen heltist úr lestinni þegar skammt var liðið á leikinn vegna tognunar á vinstri fæti.

Hinn frábæri sænski miðjumaður Jim Gottfridsson meiddist í síðari hálfleik og varð að draga sig í hlé. Óvíst er á þessari stundu hvort meiðslin hans dragi dilk á eftir sér.


Mikkel Hansen og Mathias Gidsel skoruðu sjö mörk hvor fyrir danska landsliðið og voru markahæstir.


Hampus Wanne var atkvæðamestur hjá Svíum með fimm mörk. Lukas Sandell var næstur með fjögur mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -