„Dagurinn í dag er þungur en við erum ennþá á HM og verðum að spila góðan leik á morgun og ljúka okkar hluta verkefnisins, því sem við getum stýrt,“ segir Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann að máli í hádeginu í dag, hálfum sólarhring eftir tapleikinn gegn Króötum í milliriðlakeppni HM. Tapið dró mjög úr vonum íslenska landsliðsins á HM.
Fá ferskt loft og vinna á morgun
„Héðan af getum við lítið breytt stöðunni. Nú er bara að vera saman í dag, fá ferskt loft og vera klár í leikinn á morgun,“ segir Janus Daði ennfremur en síðasti leikur íslenska landsliðsins í milliriðlakeppninni verður gegn Argentínu klukkan 14.30 á morgun.
Spurður hvað hafi helst farið úrskeiðis í tapleiknum við Króatíu í gærkvöld sem varð til þess að íslenska landsliðið missti leikinn algjörlega úr höndum sér svarar Janus að tapaðir boltar hafi ráðið miklu um.
„Það sem kálaði okkur voru tapaðir boltar sem gáfu þeim auðveld mörk og síðan nokkur dauðafæri. Það er dýrt að eiga arfaslakan fyrri hálfleik og gera of mörg mistök. Við enduðum í stöðu sem þeir eru mjög góðir í,“ segir Janus Daði Smárason landsliðsmaður.
Lengra viðtal er við Janus Daða í myndskeiði hér fyrir ofan.