„Þetta verður erfiður leikur sem við búum okkur undir af kostgæfni,“ sagði Díana Guðjónsdóttir þjálfari U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is en framundan er úrslitaleikur hjá íslenska liðinu á morgun þegar það mætir pólska landsliðinu. Úrslit leiksins skera úr um hvort það verður íslenska landsliðið eða það pólska sem vinnur sér sæti í undanúrslitum B-deildar Evrópumótsins í handknattleik kvenna.
Díana var í óða önn að búa sig og liðið undir leikinn þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar til Skopje í Norður-Makedóníu. Eftir naumt tap fyrir Hvíta-Rússlandi í fyrstu umferð, 23:22 og sigur á Finnum í fyrradag, 30:27 þá þarf íslenska liðið á sigri á halda á morgun til að komast í undanúrslit. Pólverjar eru í sömu stöðu eftir öruggan sigur á Finnum en naumt tap fyrir Hvít-Rússum.
A-riðill, staðan: Hvíta-Rússland 2 – 2 – 0 – 0 – 50:48 – 4. Pólland 2 – 1 – 0 – 1 – 60:50 – 2. Ísland 2 – 1 – 0 – 1 – 52:50 – 2. Finnland 2 – 0 – 0 – 2 – 50:64 – 0. Úrslit leikja til þessa: Ísland – Hvíta-Rússland 22:23. Pólland – Finnland 34:23. Finnland – Ísland 27:30. Hvíta-Rússland – Pólland 27:26. Næstu leikir 15. júlí: Hvíta-Rússland – Finnland, kl. 11. Ísland – Pólland, kl. 13.30.
Hefur vantað meiri yfirvegun
Díana segir alltof mörg góð marktækifæri hafi verið forgörðum gegn Hvít-Rússum í fyrsta umferðinni en varnarleikurinn hafi verið góður. „Leikurinn við Finna var köflóttari en það er ljóst eftir leikina tvo að við höfum átt erfitt með að halda forystu. Það er nokkuð sem við verðum að læra betur. Það hefur vantað meiri ró og yfirvegun í leik okkar á þeim köflum þar sem við höfum verið með yfirhöndina,“ sagði Díana sem hefur farið vel yfir tvo fyrstu leikina með leikmönnum sínum.
Hugsum um okkur sjálfar
„Leikurinn á morgun við Pólverja verður erfiður. Við liggjum yfir upptökum af leikjum Pólverja fram til þessa. Okkar markmið verður að hugsa fyrst og fremst um okkur sjálfar og halda áfram að vinna samkvæmt þeirri áætlun sem lagt er upp með. Leika okkar vörn og okkar sóknarleik. Ef við höldum okkur við það þá er allt hægt,“ sagði Díana.
Álaginu dreift
„Við dreifðum álaginu betur á milli leikmanna í viðureigninni við Finna en í fyrsta leiknum. Við munum halda þeirri áætlun í leiknum við Pólverja. Ég var mjög ánægð með þá leikmenn sem tóku þátt í leiknum við Finna, ekki síst þá sem voru að skipta út og inn. Þær væri allar tilbúnar og skiluðu sínu hlutverki afar vel.
Á morgun verður það liðsheildin sem skilar sigri og við ætlum okkur að vera það lið sem vinnur,“ sagði Díana ákveðin.
Brutu upp dagskrána
Díana segir að vel fari um allan hópinn í Skopje. Liðið býr á góðu hóteli við ströng sóttvarnarskilyrði sem sett eru. „Við brutum upp dagskrána í gær og fórum í bakgarð hótelsins og vorum þar við leiki. Eftir það var Laddakvöld í gærkvöldi í boði Gísla Guðmundssonar [markvarðaþjálfara] sem lauk með ísveislu í boði Brynju [Ingimarsdóttur liðsstjóra.] Samhliða handboltanum þá reynum við að læra og njóta að vera í keppnisferð saman sem hópur. Margir leikmenn hafa ekki farið í svona ferð áður,“ sagði Díana og bætir við að íslenski hópurinn búi við sóttvarnartakmarkanir sem Norður-Makedóníumenn leggja mikinn metnað í að fylgt sé. Fátt komi á óvart í þeim efnum eftir það sem á undan er gengið hér á landi.
Viðureign Íslands og Póllands hefst klukkan 13.30 á morgun, fimmtudag. Mögulegt verður að fylgjast með leiknum endurgjaldslaust á ehftv.com.
„Dagurinn í dag fer í undirbúning fyrir leikinn á morgun. Æfing seinni partinn og vídeófundir því við ætlum svo sannarlega að mæta klár í slaginn á morgun,“ sagði Díana Guðjónsdóttir þjálfari U19 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í morgun.