Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður bjargaði öðru stiginu fyrir Aarhus Håndbold í gær þegar liðið gerði jafntefli við SønderjyskE, 30:30, í Sydbank Arena heimavelli SønderjyskE í 16. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar. Í jafnri stöðu 45 sekúndum fyrir leikslok varði Elín Jóna skot úr opnu færi úr horni. Samherjar hennar hófu sókn í kjölfarið en tókst ekki að skora sigurmarkið.
Elín Jóna varði 11 skot, 27,5% hlutfallsmarkvarsla, í leiknum en hún stóð á milli stanganna í marki Aarhus Håndbold frá upphafi til enda ef undan er skilið eitt vítakast sem Sabine Engelert spreytti sig á að verja.
Aarhus Håndbold er í 11. sæti af 14 liðum deildarinnar með átta stig eftir 16 leiki. Tíu umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Baráttan í neðri hluta deildarinnar er afar hörð. Aðeins munar þremur stigum á neðsta liðinu, EH Aaborg, og Ringkøbing sem er í áttunda sæti.