- Auglýsing -
- Heimsmeistaramóti karla í handknattleik lauk í gær með verðskulduðum sigri Danmerkur sem nú um stundir ber ægishjálm yfir önnur landslið. Danir eiga stórkostlegt landslið sem unun er að fylgjast með, hvort heldur þegar það verst eða sækir. Fyrst og fremst einstaklega vel þjálfaðir íþróttamenn undir stjórn afar hæfs þjálfara. Nokkuð sem nokkrum sinnum hefur sést áður íþróttasögunni í hvaða flokkaíþrótt sem er.
- Vart fór það framhjá landsmönnum að íslenska landsliðið var með á HM. Ekki varð íslenska landsliðið heimsmeistari að þessu sinni fremur en hin 22 skiptin sem það hefur verið með. Engu að síður urðu margir fyrir vonbrigðum. Fimm sigurleikir, eitt tap, 9. sætið af 32 þátttökuliðum. Sigurhlutfallið hefur sennilega ekki verið hærra síðan Ísland varð í 5. sæti á HM 1997. Þá vann íslenska landsliðið sjö leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði einum leik.
- Meira að segja þegar íslenska landsliðið varði í 6. sæti á HM 2011 þá unnust fimm leikir en fjórir töpuðust.
- Rétt er að minnast að aðeins eru fjögur ár síðan Ísland vann aðeins Alsír og Marokkó á HM í Egyptalandi en tapaði fyrir Portúgal, Sviss, Frakklandi og Noregi. Niðurstaðan var 20. sæti 32. Þá voru blórabögglarnir tveir piltar sem voru álitsgjafar sjónvarpsins. Þeir voru taldir slá leikmenn út af laginu, draga úr þeim kjarkinn, með orðum sínum.
- Að þessu sinni tapaðist rangur leikur og reynsluleysi landsliðsþjálfarans kennt um. Reyndar er rangt að einhver rangur leikur hafi tapast vegna þess að eins og mótið spilaðist þá mátti íslenska liðið ekki tapa einum einasta leik hvorki í riðlakeppninni né í milliriðlum til þess að komast í átta liða úrslit. Jafnvel tap fyrir Kúbu eða Grænhöfðaeyjum hefði leitt til sömu niðurstöðu þegar öllu er á botninn hvolft. Kannski er jafn gott að segja að andstæðingar okkar hafi tapað eða unnið ranga leiki.
- E.t.v. er rangi leikurinn og slæmi kaflinn systkini?
- Það eru gömul sannindi og ný að til þess að verða heimsmeistari er öruggasta leiðin að vinna alla andstæðinga. Í íþróttum eins og í lífinu almennt er ekki hægt að eiga eitthvað víst. Enginn er annarsbróðir í leik.
- Á HM fyrir tveimur árum tapaði íslenska liðið einnig leik sem eftir á að hyggja mátti ekki tapast. Ekkert fremur en aðrir leikir á mótinu. Leikur gegn Ungverjalandi í Kristianstad. Viðureign sem íslenska landsliðið var með yfirburðastöðu í stundarfjórðungi fyrir leikslok. Þá var reyndari annar þjálfari við stjórnvölin. Engu að síður fór allt í skrúfuna. Ekki fékkst við neitt ráðið, ekkert frekar en þegar hámerin synti burt með allt færið af handfærarúllunni hjá strák staula sem réri til fiskjar með afa sínum norður á Ströndum fyrir um hálfri öld.
- Í Kristianstad fyrir tveimur árum mátti heita að íslenska landsliðið væri heimavelli með fulla keppnishöll af Íslendingum á bak við sig. Tapið gegn Ungverjum elti íslenska liðið það sem eftir var móts og kom ekki aðeins í veg fyrir sæti í átta liða úrslitum heldur gerði einnig út um vonir um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna.
- Þá var ekki hægt að kenna um óhagstæðum dómurum, óvinveittum áhorfendum, reynslulausum þjálfara eða þá pyttinum um „svik við þjóðina“, sem grandvörum blaðamanni varð á að falla ofan í á dögunum ásamt „gömlum kunningja“ sínum.
- Svona er hægt að skoða þátttöku Íslands nánast frá upphafi. Yfirleitt vantar eitthvað aðeins upp á að Ísland verði heimsmeistari í handknattleik karla. Árið 1964 unnust tveir leikir en þriðji leikurinn tapaðist og það sem verra var, of stórt, sem olli því að íslenska liðið sat eftir.
- Tíu árum síðar voru væntingar miklar en inflúensa lék landsliðið svo grátt þegar á hólminn var komið að með naumindum náðist í lið til þess að leika leikina þrjá.
- Man ennþá einhver eftir „svörtum dögum“ í Danmörku á HM 1978?
- Vonandi rennur upp sá dagur að Ísland eignast eins gott landslið og Danir eiga nú og Frakkar átti framan af öldinni. Þá munu bæði réttu og röngu leikirnir vinnast. Hugsið ykkur hversu gaman verður þá!
Ívar Benediktsson, [email protected]
- Auglýsing -