Útlit er fyrir að Viggó Kristjánsson missi af fyrstu leikjum HC Erlangen eftir að keppni hefst á ný í þýsku 1. deildinni um næstu helgi. Handball-World greinir frá þessu í dag og segir að Viggó hafi meiðst á hné á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Meiðslin geti orðið til þess að hann verði ekki með í einum eða fleiri leikjum HC Erlangen á næstunni.
Viggó var keyptur til HC Erlangen á síðustu dögum síðasta árs frá Leipzig ásamt Serbanum Miloš Kos til þess að efla liðið fyrir átökin sem framundan á næstu vikum.
HC Erlangen er í næst neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar þegar keppni í deildinni er svo gott sem hálfnuð. Fyrsti leikur Erlangen á nýju ári verður á heimavelli gegn Flensburg á sunnudaginn. Viku síðar á liðið einnig heimaleik og þá koma leikmenn HSV Hamburg í heimsókn.
Viggó var markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins á HM.
Viggó markahæstur í fyrsta sinn – sigurleikir eru orðnir 64
Viggó seldur til HC Erlangen – kveður Leipzig um áramótin