- Auglýsing -
- Sænski línumaðurinn Felix Claar verður klár í slaginn með þýska meistaraliðinu SC Magdeburg þegar keppni hefst á nýjan leik í þýsku 1. deildinni um næstu helgi. Claar hefur verið fjarverandi vegna meiðsla síðan á Ólympíuleikunum í sumar þegar hann sleit hásin í leik með sænska landsliðinu. Bati Claar þykir skjótur og góður.
- Óheppni með meiðsli hefur elt þýsku meistarana síðustu mánuði og m.a. er Ómar Ingi Magnússon ennþá úr leik vegna ökklameiðsla. Vonir standa til þess að hann verði klár í slaginn inn fárra vikna.
- Rétt áður en HM hóst sleit Manuel Zehnder krossband og línumaðurinn Oscar Bergendahl meiddist á ökkla eins og Ómar Ingi.
- Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson voru á meðal fjölda þekktra handknattleiksmanna sem voru í úrvalsliði þýska handknattleiksmannsins Uwe Gensheimer í gærkvöld þegar hann fékk kveðjuleik í Mannheim. Gensheimer lagði skóna á hilluna síðasta sumar en hann er dáðasti handknattleiksmaður Þýskalands í seinni tíð. Hann lék allan sinn feril með Rhein-Neckar Löwen að tveimur árum undanskildum er hann var með PSG í París.
- Uppselt var á kveðjuleikinn í SAP Arena í gærkvöld, 13.200 áhorfendur. Þjálfari heimsmeistara Danmerkur, Nicolaj Jacobsen, var á meðal þátttakenda. Hann stýrði úrvalsliði Uwe Gensheimer, Uwe’s All-Stars. Jacobsen var um árabil þjálfari Rhein-Neckar Löwen áður en hann tók við þjálfun danska karlalandsliðsins.
- Örvhenta stórskyttan Ivan Martinovic tekur við fyrirliðastöðunni hjá króatíska landsliðinu í handknattleik af Domagoj Duvnjak sem sagði skilið við landsliðið eftir úrslitaleik heimsmeistaramótsins. Duvnjak lék í 19 ár með landsliðinu. Hann sagði frá því fyrir HM að landsliðsferlinum lyki í mótslok. Duvnjak var fyrirliði króatíska landsliðsins um árabil og leiðtogi liðsins utan vallar sem innan.
- Leikmenn hins gjaldþrota norska meistaraliðs, Vipers Kristiansand, eru jafnt og þétt að tínast jafnt og þétt í önnur lið. Sænska landsliðsins Carin Strömberg samdi í gær við franska liðið Chambray Touraine. Hún er þar með þriðja sænska landsliðskonan sem var Vipers sem komist hefur á samning á síðustu vikum.
- Auglýsing -